2001-11-19 17:23:11# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[17:23]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir að hluti af orkulindum Íslands verður ekki nýttur nema til stóriðju, t.d. Kárahnjúkavirkjun. Það liggur alveg fyrir að sú virkjun verði ekki nýtt til almennrar notkunar.

Það er ágætt að tala um vetni. Í því efni er mjög mikilvæg vinna í gangi á vegum iðnrn. Það er ekki komin nein niðurstaða í það og þess vegna liggur náttúrlega alveg ljóst fyrir að nýting þessarar orku er háð því að við getum gert þetta.

Hv. þm. kemur núna og segir, sem er ekki í neinu samræmi við málflutning hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, að það eina sem Vinstri grænir hafi nú verið að gagnrýna séu vinnubrögð, það að hafa ekki skrifað undir á réttum stað og réttum tíma. Það er númer eitt, og gagnrýnisatriði númer tvö laut að því sama, að hafa ekki skrifað undir þannig að upp væri komin siðferðileg staða. Gagnrýni hans hér í dag, þegar hann ,,súmmerar`` hana upp, lýtur bara að þessari einu undirskrift. Ef það er þannig lít ég svo á að hann sé búinn að taka allt hitt til baka sem hann hefur áður sagt um málið --- sem ég fagna sérstaklega --- og ómerkt orð hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur sem er talsmaður Vinstri grænna hér í umræðum í dag. Þetta eru mikil tíðindi, og ég fagna þeim og jafnframt þessari skynsamlegu afstöðu formanns Vinstri grænna, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að gagnrýna núna bara eina undirskrift sem ekki fór fram. Þetta finnast mér vera mjög merkileg tíðindi hér í dag.