2001-11-19 17:31:39# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[17:31]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það að berjast fyrir hagsmunum Íslands á þessu sviði heitir á máli hv. þm. ,,að gerast laumufarþegi`` og ,,vera með frítt spil`` á meðan aðrir eru líka að berjast fyrir hagsmunum sínum. Hv. þm. segir að Íslendingar séu rík þjóð. Það er rétt. Það er fyrst og fremst vegna þess að við eigum auðlindir sem ekki hafa verið nýttar að fullu. Og við erum náttúrlega langt á eftir öðrum ríkjum í OECD í sambandi við uppbyggingu iðnaðar. Uppbygging á áliðnaði og nýting orkuauðlindanna í t.d. Noregi er komin langt fram úr því sem við erum að tala um. Hér er allt miðað við 1990. Það skipti náttúrlega miklu máli að við yrðum að verja þá sérstöðu.

Nú liggur þetta fyrir. Það er gott að það skuli koma skýrt fram í umræðunni að Vinstri grænir eru á móti þessu. Þeir vilja að Íslendingar nýti ekki þetta ákvæði, eins og ég skil það.

Gert er ráð fyrir að hagvöxtur á Íslandi verði á næsta ári enginn og jafnvel neikvæður. Er það framtíðarsýnin? Eigum við ekki að reyna að auka tekjur okkar?

Hv. þm. segir að framleiðsla á áli sé mengandi. Þetta er léttmálmur og það skiptir miklu máli að hætta að nota ýmsa aðra málma og nota ál í staðinn. Bílar eyða m.a. miklu minna eldsneyti ef þeir eru sem mest byggðir úr áli. Á endalaust að bíða eftir einhverjum öðrum töfraefnum? Við skulum vona að þau finnist, en eigum við Íslendingar bara að bíða til 2020, 2030, þangað til einhverjar aðrar lausnir eru komnar og láta þetta bara eiga sig á meðan?