2001-11-19 17:38:13# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, MS
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[17:38]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu skýrsla hæstv. umhvrh. um niðurstöðu 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Ég vil í upphafi máls míns óska hæstv. umhvrh. og íslenskum stjórnvöldum, ásamt þeim sem hafa unnið að málinu í mörg undanfarin ár, til hamingju með þann árangur sem náðst hefur við að gæta hagsmuna Íslands á þessu sviði og einnig til hamingju með að þessi niðurstaða sé yfir höfuð komin.

Fyrir liggur að nú getur Ísland unnið að því að fullgilda Kyoto-bókunina. Það er sérstakt ánægjuefni. Eins og fram hefur komið í umræðunni í dag mun tillaga um það væntanlega berast til hv. Alþingis fljótlega á næsta ári. Einnig er ástæða til að vekja athygli á því að með niðurstöðu þessa máls hefur náðst fram niðurstaða varðandi eitt af þeim markmiðum sem ríkisstjórnin setti sér þegar hún var mynduð, að Ísland gerðist aðili að Kyoto-bókuninni þegar fyrir lægi að ásættanleg niðurstaða hefði náðst í sérmálum Íslands. Með öðrum orðum, herra forseti, við látum verkin tala.

Íslensk stjórnvöld með umhvrh. í broddi fylkingar hafa um langan tíma lagt mikið starf af mörkum við að gæta hagsmuna Íslands á þessum vettvangi, og jafnframt unnið að því markmiði að staðfesta með öðrum þjóðum heims samning og skuldbindingar um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Við samþykkt Kyoto-bókunarinnar árið 1997 tókst Íslendingum með þáv. hæstv. umhvrh., Guðmund Bjarnason, í broddi fylkingar að fá viðurkennda sérstöðu Íslands sem felst í smæð efnahagskerfisins og samsetningu losunar hér á landi. Þannig var viðurkennt að ekki væri rökrétt að setja Ísland á bekk með stórum iðnþjóðum sem búa við stór og öflug hagkerfi og mikið magn losunar. Þetta var mikilvægur áfangi á þeirri leið að Ísland gæti tekið þátt í þessu verkefni þjóða heims.

Við erum öll sammála um að vegna óheillaþróunar í loftslagsmálum verði þjóðir heimsins að taka höndum saman og stöðva þá þróun og í framtíðinni helst að snúa henni við. Ísland á að sjálfsögðu að taka þátt í slíku verkefni, enda eru framtíðarhagsmunir Íslendinga ekki síður í húfi en annarra jarðarbúa.

Herra forseti. Hæstv. umhvrh. hefur gert grein fyrir þeirri skýrslu sem hér er til umfjöllunar. Ég vil aðeins nefna nokkur atriði sem fram koma í skýrslunni máli mínu til áréttingar.

Í umræðunni um loftslagsmálin, framgöngu íslenskra stjórnvalda og niðurstöðu málsins hefur mikið farið fyrir hinu svonefnda íslenska ákvæði sem mjög hefur verið rætt í umræðunni. Ég fullyrði að til lengri tíma litið muni Íslendingar njóta þess mjög að stjórnvöldum tókst að fá þetta ákvæði samþykkt. Það væri út í hött að meðhöndla Ísland á sama hátt og þjóðir sem eru margfalt stærri með margfalt stærra og öflugra hagkerfi, með mikinn og öflugan iðnað og losa margfalt magn af gróðurhúsalofttegundum á við það sem við gerum. Aukin losun hér á landi, t.d. með tilkomu nýrra stóriðjuvera, er hlutfallslega mikil miðað við það sem losað er í heild hérlendis, en slík aukning hér getur haft áhrif til minni losunar ef litið er hnattrænt á málið.

Þetta markast fyrst og fremst af þeim orkugjöfum sem viðkomandi starfsemi notast við. Hér notum við hreina endurnýjanlega orku en víðast hvar annars staðar er notast við jarðefnaeldsneyti og jafnvel kjarnorku. Hljóta allir að sjá að á heildina litið er ávinningur í því að auka hlutfallslega mikið losun gróðurhúsalofttegunda miðað við heildarlosun hér á landi en draga á sama tíma úr losun á heimsvísu. Þetta ættu ekki að vera flókin vísindi en því miður eru þeir til sem neita að meðtaka það og spóla í hinu gamla hjólfari öfganna eins og við höfum heyrt í umræðunni í dag. Það að beita sér gegn svona mikilvægu hagsmunamáli þjóðarinnar eins og stjórnarandstaðan hefur gert á síðustu árum er ábyrgðarleysi og hittir stjórnarandstöðuna sjálfa fyrir.

Varðandi bindingu kolefnis með ræktun er nauðsynlegt að halda því til haga að fyrir frumkvæði Íslands og Ástralíu var fallist á að landgræðsla fengist viðurkennd til jafns við nýræktun skóga. Hér er um enn eitt hagsmunamál okkar að ræða sem tókst að leiða til lykta. Óhætt er að fullyrða að þessi niðurstaða muni til framtíðar leiða til þess að við munum leggja enn meira upp úr landgræðslu og skógrækt en verið hefur.

Í skýrslu hæstv. umhvrh. er fjallað um svonefnt sveigjanleikaákvæði. Í því felst m.a. að ríki geta átt viðskipti með losunarheimildir eftir ákveðnum framsalsreglum. Það sem að okkur snýr varðandi sveigjanleikaákvæði er að með samstarfi við þróunarríki getum við talið okkur til tekna árangur sem næst við nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Nefnd hafa verið dæmi um að sú mikla þekking og reynsla sem Íslendingar hafa byggt upp við virkjun og nýtingu jarðvarma geti nýst okkur að þessu leyti og að víða í þróunarríkjum séu miklir möguleikar á nýtingu jarðvarma. Þannig má segja að samstarf á þessu sviði við þróunarríki geti ekki einungis skapað okkur ávinning varðandi losun gróðurhúsalofttegunda heldur mun það í framtíðinni geta ýtt undir aukinn útflutning á þeirri auðlind okkar sem er hugvitið og verkþekkingin.

Í umræðunni um loftslagsmál og efni skýrslu hæstv. umhvrh. er komið inn á uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Íslandi og heildarlosun gróðurhúsalofttegunda hér. Umræðan um stóriðju hefur verið með ýmsu móti. Þeir sem eru harðastir gegn slíkri starfsemi á grundvelli umhverfismála eru gjarnir á að mála allt dökkum litum þegar rætt er um losun gróðurhúsalofttegunda. Menn tala gjarnan um spúandi stóriðjuver og hafa þá væntanlega í huga myndir sem við höfum séð af óskilgreindum verksmiðjum erlendis á þeim tímum þegar menn hugsuðu ekkert um þessi mál, engar mengunarvarnir voru notaðar og heilu borgirnar voru faldar undir svörtum mekki frá spúandi verksmiðjum og orkuverum sem notuðu kol eða önnur jarðefni til orkuframleiðslu. Þessi mynd er gjarnan heimfærð og notuð í áróðrinum gegn stóriðjuverum hér á landi, það höfum við heyrt undanfarin ár.

Vonandi gera flestir sér grein fyrir því að þessi mynd er ekki rétt. Ef við lítum til þeirra álvera sem starfrækt eru á Íslandi er ljóst að þau hafa lagt mikið upp úr því að minnka losun slíkra lofttegunda og gríðarlegar framfarir hafa orðið í þróun mengunarvarna til að takmarka þá losun eins og mögulegt er. Í nýbyggðu álveri Norðuráls á Grundartanga eru til að mynda mjög öflugar mengunarvarnir sem hafa sýnt fram á mikinn árangur. Í álveri Ísals í Straumsvík hefur mikið verið lagt upp úr því að minnka losun frá því sem var á fyrri tímaskeiðum starfseminnar. Fram hefur komið að álverið í Straumsvík hefur minnkað losun gróðurhúsalofttegunda á hverja framleiðslueiningu. Þar hefur náðst mikill árangur í minnkun á losun flúorkolefna þannig að í dag er sú losun mun minni en var árið 1990, svo ekki sé leitað lengra aftur í tímann, þrátt fyrir að framleiðsla fyrirtækisins sé helmingi meiri nú en hún var árið 1990. Sá árangur hefur náðst í samstilltu átaki þessa fyrirtækis og stjórnvalda og er dæmi um þær áherslur sem stjórnvöld og þessi stóriðjufyrirtæki hafa haft varðandi loftslagsmálin.

[17:45]

Niðurstaða mín varðandi umræðuna um stóriðju á Íslandi og losun gróðurhúsalofttegunda er sú að mikið hafi farið fyrir öfgafullum málflutningi sem málar hlutina dökkum litum en hefur því miður oft og tíðum ekki stoð í raunveruleikanum. Þessi umræða verður að byggjast á málefnalegum nótum þannig að heildarárangur náist. Hitt er annað að við verðum ætíð að hafa þessi mál uppi á borðinu í umræðunni um orkufrekan iðnað sem og aðra starfsemi sem undir þetta fellur með það að markmiði að loftslagsmengun verði eins lítil og mögulegt er og helst engin.

Þó að við getum væntanlega öll glaðst yfir þeirri niðurstöðu sem hér um ræðir þá fylgja þessu máli ýmis áhyggjuefni varðandi umhverfisvernd til framtíðar. Þannig hefur verið bent á að þær niðurstöður sem liggja fyrir muni mjög líklega valda því að ákveðin ríki leggi enn meiri áherslu á nýtingu kjarnorku til orkuvinnslu en áður. Við þekkjum hvað slíkt hefur í för með sér. Það nægir að nefna meðhöndlun kjarnorkuúrgangs, endurvinnslu kjarnorkuúrgangs o.fl. Í framhaldi af þessum niðurstöðum hljóta ríki heims að leggja aukna áherslu á aðgerðir til að draga úr þeirri hættu sem þessu fylgir og þar liggja hagsmunir Íslendinga. Nægir þar að nefna lífríki hafsins fyrir okkur og hættuna á að kjarnorkuúrgangur valdi tjóni á því.

Við höfum lengi barist við Breta varðandi kjarnorkuendurvinnslustöðvarnar á Dounreay og Sellafield. Á þessum forsendum er ljóst að leggja verður aukinn þunga á þá baráttu í framhaldinu, herra forseti.

Ég legg áherslu á þetta mál. Það þarf að auka umræðuna og leggja aukna áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir varðandi kjarnorkuna og kjarnorkuúrgang og ég tel að það fylgi umræðunni um þetta mál sem hér um ræðir.

Eins og fram kemur í skýrslu hæstv. umhvrh. kemur langmestur hluti losunar gróðurhúsalofttegunda frá iðnríkjunum til vegna bruna jarðefnaeldsneytis. Því er rökrétt að jarðarbúar standi nú frammi fyrir vandamálum vegna loftslagsbreytinga vegna þess. Það er augljóst að draga þarf verulega úr notkun þessa eldsneytis við orkuvinnslu og auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa. Þessi staðreynd bendir á framtíðarmöguleika okkar Íslendinga við nýtingu orkuauðlinda okkar og beinir okkur enn frekar að því að ráðast í framleiðslu á vetni sem framtíðarorkugjafa. Undir forustu framsóknarmanna hefur verið unnið markvisst að þessu máli og hefur m.a. hv. þm. Hjálmar Árnason verið einn af þeim sem staðið hafa þar í fylkingarbrjósti.

Herra forseti. Það er athyglisvert nú þegar við ræðum þessa skýrslu og þá niðurstöðu sem hér liggur fyrir að rifja upp það framlag sem stjórnarandstaðan hefur lagt til í umræðunni um þessi mál á síðustu árum. Segja má í ljósi þess árangurs sem nú liggur fyrir og hver staða málsins er að á sinn hátt sé það hin mesta skemmtun að leggjast í söguskoðun að þessu leyti.

Í umræðunni í dag hefur ýmislegt verið dregið fram, t.d. það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur haft í frammi undanfarin ár í umræðunni um þessi mál. Hægt er að tína þar ýmislegt til en ég ætla ekki að leggjast í smáatriði að því leyti. Ég vil bara vekja athygli á því að forusta Samfylkingarinnar hefur gengið mjög ómálefnalega fram í þessu máli á undanförnum árum og kallað forustumenn og hæstv. ráðherra sem hafa farið með þennan málaflokk ýmsum nöfnum til háðungar og ég tel að það hitti menn nú mest fyrir sjálfa sig.

Einnig má nefna framgöngu hv. þm. Vinstri grænna. Þeir hafa gengið svipað fram í þessum málum og ég verð að segja á köflum haft uppi hér rómantískar hugleiðingar um umhverfismál, um bílaeign veraldarbúa o.s.frv., eins og kom fram hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur hér áðan. En niðurstaðan varðandi Vinstri græna er einfaldlega sú að hv. þingmenn halda áfram að berja höfðinu við stein og eru á móti í þessu máli eins og svo mörgum öðrum, a.m.k. er ekki annað að merkja á þessari stundu. Ég tel hins vegar að þeir hafi tækifæri til þess að bæta ráð sitt þegar tillögur um fullgildingu þessa samkomulags koma hér til umræðu. Ég trúi nú ekki öðru, þegar hv. þingmenn fara að skoða málið eins og það mun liggja fyrir, en að þeir snúist á sveif með málinu og standi með okkur. Ég verð að segja að annað væri nokkurt ábyrgðarleysi og veruleikafirring.

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda áfram að rifja upp fyrri ummæli stjórnarandstæðinga. Það hefur verið gert hér í dag og ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að teygja tímann með því. Ég tel að ýmis tækifæri muni bjóðast til þess á síðari stigum. Ég vil bara ljúka ræðu minni á því að endurtaka að mikil ánægja er með að þetta mál skuli liggja hér fyrir eins og það er. Við munum síðar, eins og fram hefur komið, fjalla um tillögur sem lúta að því að Ísland fullgildi það samkomulag sem við hér ræðum. Það er ánægjuefni og ég mun taka virkan þátt í því að sjálfsögðu að leiða það mál til lykta og hlakka til samstarfs við nefndarmenn í umhvn. um það. Ég er sannfærður um að þar mun ríkja mikil eindrægni í þá veru að ljúka málinu.