2001-11-19 18:12:10# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, PHB
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[18:12]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér skýrslu hæstv. umhvrh. um niðurstöðu 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

Þannig er málum háttað að mengun þekkir yfirleitt ekki landamæri og þá sérstaklega sú mengun sem við ræðum hér um, þ.e. koldíoxíðmengun. Ef einhvers staðar myndast koldíoxíðmengun í heiminum þá skaðar það allt mannkynið. Þess vegna er mjög mikilvægt að tekið sé á því vandamáli um allan heim. Hins vegar er sú kenning sem er á bak við gróðurhúsaloftsáhrifin ekki byggð á vísindalegum rannsóknum heldur er þetta eingöngu kenning og ég vil undirstrika það. Einnig þarf að hafa í huga að sú kenning, ef henni verður framfylgt að fullu, gæti haft áhrif til að lækka lífskjör allra jarðarbúa og það mun að sjálfsögðu koma verst niður á þeim sem búa við lélegustu lífskjörin.

Vandi Íslands er sá að áður en viðmiðunarárið rann upp, 1990, voru Íslendingar búnir að útrýma jarðefnaeldsneyti til húshitunar. Nánast hvert einasta hús í landinu er annaðhvort hitað með heitu vatni úr iðrum jarðar eða rafmagni. Kol og olía eru ekki notuð til húshitunar á Íslandi. Þessu er öfugt farið annars staðar.

Annar vandi Íslendinga er sá að mjög lítið hefur verið virkjað af þeim endurnýjanlegum virkjunarkostum sem við eigum, einungis 20--30% af því sem er praktískt eða raunhæft að virkja.

Afleiðingar þessa samkomulags erlendis, þar sem þróunarríkin eru undanskilin, munu óhjákvæmilega verða þær að orkufrekur iðnaður flyst frá þróuðu ríkjunum til þróunarríkja, frá iðnvæddu ríkjunum til hinna. Iðnvæddu ríkin munu þurfa að setja kvaðir á framleiðslu orku sem mun leiða til þess að væntanlega verður einhver skattur, koldíoxíðskattur, settur á þá orku, raforku t.d. sem framleidd er með kolum eða öðrum hætti, og það mun leiða til þess að orkufrekur iðnaður mun í auknum mæli fara til landa þar sem slíkur skattur er ekki. Það hefur það í för með sér að álið eða önnur vara sem framleidd er í orkufrekum iðnaði verður framleidd eftir sem áður enn í þróunarlöndum, oftast nær með jarðefnum, þar sem endurnýjanlega orku er ekki mjög víða að finna.

[18:15]

Herra forseti. Íslenska ákvæðið sem við náðum fram í samningum leiðir til þess að það má framleiða, reyndar í takmörkuðum mæli, orku á Íslandi sem er endurnýjanleg án þess að það komi inn í koldíoxíðreikningsdæmið. Þetta eru að sjálfsögðu hagsmunir Íslands en ekki síður hagsmunir heimsins vegna þess að ál sem framleitt er á Íslandi sparar heimsbyggðinni koldíoxíðmengun. Ef það er framleitt annars staðar með olíu, mó, brúnkolum eða kolum veldur það miklu meiri koldíoxíðmengun sem, eins og ég gat um í upphafi, þekkir ekki landamæri. Þess vegna eru það hagsmunir heimsbyggðarinnar að stóriðja sé á Íslandi.

Íslenska ákvæðið undirstrikar hnattræna siðferðilega skyldu Íslands til að nýta betur endurnýjanlegar orkulindir landsins til orkufreks iðnaðar. Það eru hagsmunir Íslands og það eru hagsmunir heimsbyggðarinnar. Og ég vil nota þetta tækifæri, herra forseti, til að þakka hæstv. umhvrh. og hennar fólki fyrir framgöngu hennar í þessu máli fyrir íslenska hagsmuni sem um leið eru hagsmunir heimsbyggðarinnar. Það er ekki erfitt að hrósa hæstv. umhvrh. á þessari stundu.