2001-11-19 18:26:15# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[18:26]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki skrýtið að fulltrúum stjórnarandstöðunnar sem hafa hent grín að þeirri vinnu sem farið hefur fram á þessum vettvangi og kallað hana öllum ónefnum og hvatt til þess að Kyoto-bókunin væri undirrituð, svíði núna að sjá þann árangur sem náðst hefur. Þeir hafa orð á því, eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, að sá árangur sem hefur náðst, auknar losunarheimildir, sé auðlind og það er ljóst að þetta eru verulegir hagsmunir fyrir íslenskt samfélag og gera okkur kleift að nýta náttúrulegar auðlindir okkar betur en ella.

Hverjir eru síðan, þegar upp verður staðið, ríkustu hagsmunir íslensku þjóðarinnar? Það getum við hugsanlega deilt um, hv. þm. Steingrímur Sigfússon, en gagnvart því að geta nýtt náttúrulegar auðlindir okkar skiptir þessi vinna á alþjóðavettvangi og íslenska ákvæðið sköpum.