2001-11-19 18:48:51# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[18:48]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég var að tala um verðgildi þessara losunarkvóta þá var ég að vitna til þeirra hugmynda sem hér hafa komið fram í umræðunni um að gera þær sem slíkar að söluvöru sérstaklega og þá auðvitað hér innan lands. Mér er ljóst að undanþágulosunina samkvæmt hinu svokallaða íslenska ákvæði, stóriðjuundanþáguákvæðinu, má að sjálfsögðu ekki selja úr landi og skárra væri það nú. Ég held að enginn hafi haft hugmyndaflug til að láta sér detta það í hug. En menn hafa verið að velta vöngum yfir því hvort ætti t.d. að láta menn greiða fyrir afnot af því hér innan lands og það var til þess sem ég var að vísa.

Að öðru leyti veit ég ekki betur en að meiningin hafi verið sú að um alþjóðlegan markað geti verið að ræða þannig að til uppbyggingar hér á Íslandi, óháð íslenska ákvæðinu, hefði verið hægt að kaupa losunarkvóta á alþjóðlegum markaði, ég hef skilið það svo. Hins vegar setur þetta íslenska ákvæði þarna ákveðnar takmarkanir á sem kannski flækja málin.

Varðandi það að umhverfisvænt sé að stórauka iðnaðarstarfsemi hér á landi, sem losar mikið af gróðurhúsalofttegundum eins og frumvinnsla áls gerir, án þess að það falli undir þök Kyoto-ákvæðisins þá mótmæli ég því að svo sé. Íslenska orkan, þ.e. virkjun vatnsafls eða nýting jarðvarma til raforkuframleiðslu, algjörlega óháð Kyoto, er þeirrar náttúru að ekki er mikið losað af gróðurhúsalofttegundum við það. Það hefði ekkert breyst, það hefði alltaf komið okkur til góða inn í framtíðina. Þess vegna má segja að það forskot hefði Ísland hvort sem er haft og þurfti enga samninga um það. Spurningin snýst um ráðstöfun orkunnar, og það er vilji ríkisstjórnarinnar að hún skuli öll og helst strax fara í álbræðslu sem er mjög mengandi starfsemi. Ef menn væru að tala um að nýta þessa orku í þágu t.d. þess að reyna að útrýma jarðefnaeldsneyti sem mest hér á landi þá væru menn virkilega farnir að leggja eitthvað hnattrænt af mörkum en ekki með þessum reiknikúnstum sínum.