2001-11-19 19:04:17# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[19:04]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. nefndi að Samfylkingin hefði viljað undirrita Kyoto-bókunina strax. Nú hef ég fylgst með þessari umræðu í allan dag og engar röksemdir heyrt fyrir því að það hefði komið í veg fyrir að menn næðu þeim mikla árangri sem talað hefur verið um, þó að þessi bókun hefði verið undirrituð. Af því að ég hef ekki heyrt þessar röksemdir og af því að ég hef ekki trú á því að menn hafi fyllst slíkri skelfingu af því að Íslendingar höfðu ekki skrifað undir þá langar mig til að biðja hv. þm. að útskýra þetta fyrir mér.

Úr því að ég er farinn að biðja hv. þm. að útskýra fyrir mér hlutina þá langar mig líka að spyrja hann um hvernig hann líti á það verkefni sem er fram undan, þ.e. að ákveða með hvaða hætti eigi að úthluta mengunarkvótum til þeirra fyrirtækja sem verða til og fara að framleiða ál í landinu. Telur hann að það eigi bara að fylgja með sem bónus til þeirra eða á að selja þeim það á einhverju verði? Hvernig lítur hann á það svona almennt séð?

Mér fyndist ágætt fyrir umræðuna að fram kæmi einhver stefna í þessu efni. Þetta skiptir afar miklu máli. Það þýðir ekki að horfa fram hjá því að hér eru á ferðinni veruleg verðmæti. Hér á hv. Alþingi hljóta menn að taka afstöðu til þess hvernig eigi að koma þeim fyrir, hvort það eigi að vera bónus þeim fyrirtækjum sem hér er stofnað til eða hvort það sem fyrir þetta kemur eigi að vera eign þjóðarinnar.