2001-11-19 19:10:22# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[19:10]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég kom hér til að leiðrétta ákveðið atriði þar sem hv. þm. hefur greinilega ekki lagt við hlustir. Ég var að fjalla um þá sem mest menguðu í þessu tilviki og nefndi þar m.a. Rússland. Mér virtist hv. þm. sakna þess mjög að ég gerði grein fyrir hlut þeirra er mikið menga í austanverðri Evrópu. Ég hefði auðvitað geta nefnt fleiri en Rússa en ég nefndi þá af því að þeir eiga þarna stóran hlut að máli, nota tiltölulega mikið af orku, olíu og gasi og víða með heldur lélegum búnaði víða þannig að orkunýting er léleg og losun mikil.

Hins vegar hefur dregið mjög úr losun víða í ríkjum austanverðrar Evrópu sem byggði mikið á þungaiðnaði sem hefur raunar hrunið og þetta getur hv. þm. séð í töflum þar um. Það er reyndar eitt af þeim atriðum sem menn hafa haft áhyggjur af, að það svigrúm sem þannig hefur skapast mundu aðrar þjóðir ganga inn í og nýta sér og komast upp með að leggja lítið af mörkum við að koma böndum á raunverulega losun sem er virk í dag.

Varðandi sérstöðu Íslands að öðru leyti í þessum efnum þá tíunda menn hana mjög og nefna til sögunnar, sem eru ekki nýjar fréttir, að Íslendingar hita húsin sín að mestu leyti með jarðvarma og að við framleiðum að mestu leyti rafmagn okkar með fallorku og jarðvarma. En þrátt fyrir þetta er sérstaða Íslands ekki meiri en svo að við losum vel í meðallagi iðnvæddra ríkja gróðurhúsalofttegundir á hvern mann. Við erum auk þess á hraðri uppleið, erum eiginlega ein fárra þjóða sem eykur losunina gríðarlega frá og með árinu 1990 og stefnum þar í heimsmet, í fyrsta sæti. Þetta gerist bæði vegna þess að hér er stóriðja að aukast mjög en líka vegna þess að í almennu atvinnulífi er engin stefna í gangi til að koma böndum á losun. Við losum mikið í iðnaði. Við erum með mikla flutninga á landi og höfum gríðarstóran flota. Allt leggur þetta sitt af mörkum í þessu samhengi.