2001-11-19 19:19:06# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[19:19]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. umhvrh. fyrir þessa skýrslu sem hún hefur gefið þinginu og þakka henni alveg sérstaklega fyrir framgöngu hennar í öllu þessu máli. Eins vil ég þakka hæstv. utanrrh. og öðrum þeim sem hafa komið að vinnunni, og vil þá alveg sérstaklega nefna íslensku sendinefndina sem ég tel að hafi unnið mikið þrekvirki við það að ná fram því ákvæði sem við Íslendingar höfum verið að berjast fyrir og er mjög mikilvægt hagsmunum okkar.

Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að ætla að halda þessari umræðu mikið áfram. Ég held að hún sé kannski eitthvað farin að endurtaka sig. Þess sjást ekki greinileg merki að fylkingar hafi nálgast mikið. Mér finnst að hv. þm. Vinstri grænna taki einhvern veginn alls ekki inn í umræðuna að það sé hnattrænt jákvætt að framleiða ál á Íslandi með endurnýjanlegri orku eins og ég leyfi mér að halda fram. Það er þetta sem mér finnst vera grundvallaratriði í sambandi við íslenska ákvæðið sem nú hefur náðst samþykki fyrir, og ég fullyrði að samþykki annarra þjóða fyrir þessu ákvæði hefði ekki náðst nema vegna þess að þær eru sammála okkur. Það er ekki fyrir það að hæstv. umhvrh. --- sem ég trúi henni þó alveg til --- hafi heillað allar þjóðir upp úr skónum og fengið þær til þess að samþykkja ákvæði okkar. Það er bara einfaldlega viðurkennt að þetta er umheiminum jákvætt og þess vegna fæst þessi niðurstaða.

Mér finnst að umræðan hafi í aðalatriðum verið málefnaleg. Þó er alltaf freistandi að rifja ýmislegt upp sem áður hefur verið sagt í ferlinu og fara yfir tillöguflutning og fleira en ég ætla ekki að eyða tímanum í það. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði um það sem kostulega röksemdafærslu að aukin mengun á Íslandi sé jákvæð fyrir umheiminn. Ég hef komið lítillega inn á það hvernig ég lít á málið, og líka kemur fram í lokaorðum hæstv. umhvrh. í skýrslunni að um 80% losunar gróðurhúsalofttegunda frá iðnríkjunum stafar af bruna á jarðefnaeldsneyti, þ.e. kolum, olíu og gasi, og að á því þurfi að taka.

Er þá álið svona mikill bölvaldur? Er það ekki einmitt gagnstætt? Er ekki álið einmitt léttmálmur sem er umhverfisvænn? Því vil ég halda fram. Þegar hv. þm. efast um þær forsendur sem liggja til grundvallar íslenska ákvæðinu verðum við að hafa það í huga að samkvæmt spám helstu sérfræðinga í áliðnaði munu þjóðir heims á næstu 10 árum auka ársframleiðslu á áli um 8 millj. tonna, og 60% af þessari auknu framleiðslu munu koma frá kola- og gasorku en aðeins um 40% frá vatnsorku. Þetta finnast mér vera uggvænleg tíðindi, og þau staðfesta nauðsyn þess að allar þjóðir freisti þess að auka notkun hreinna orkulinda, eins og við Íslendingar höfum tök á.

Um allan heim kappkosta menn að auka hlutdeild endurnýjanlegrar orku og orkulinda í stað mengandi orkugjafa. Þar höfum við ákveðnar skyldur. Ég tel okkur hafa þær skyldur líka samkvæmt Ríó-sáttmálanum að leggja okkar af mörkum í þessum efnum. Við getum svo sannarlega verið stolt yfir því að vera með þessa gnægð af endurnýjanlegri orku þó að alltaf megi deila um það hversu mikið skuli nýtt af henni, og einhvers staðar liggja takmörkin í þeim efnum, en mér fannst hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ganga nokkuð langt þegar ég heyrði hann segja áðan að hann teldi að við gætum hugsanlega nýtt 50--70% --- ég held að ég hafi tekið rétt eftir --- (Gripið fram í.) sem við gætum nýtt vegna þess að í dag erum við ekki komin í nema eins og 15%. Miðað við þá yfirlýsingu hans getur hann fallist á mjög mikla viðbótarnýtingu á þessum mikilvægu orkulindum okkar, og það er ég tilbúin að lýsa mikilli ánægju með þótt ég ætli ekki að fara frekar út í það núna hvaða orkulindir og orkumöguleikar ættu að vera í fyrirrúmi.

Ég vil að síðustu segja að það að við losum mikið af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið, sem er vissulega rétt, hefur náttúrlega sínar skýringar, m.a. þær að við búum í strjálbýlu landi og byggjum mjög á fiskveiðum. Að því leyti til held ég að skilningur á sérstöðu okkar í sambandi við allar þessar viðræður hafi náðst. Auðvitað er það svo mál út af fyrir sig og hefur verið rætt hér hversu langt við erum komin í því að nýta þessa endurnýjanlegu orku til að hita upp híbýli okkar.

En erum við þá ekkert að gera til að koma til móts við þessi sjónarmið almennt, að draga úr gróðurhúsaáhrifunum? Ég tel að við séum að leggja nokkuð af mörkum, eins og t.d. í sambandi við vetnið. Því er ekki hægt að neita að stjórnvöld hafa komið að málum eins og í sambandi við það tilraunaverkefni sem nú er að fara af stað í Reykjavík og varðar strætisvagna sem verða vetnisknúnir. Það gerist ekkert alveg af sjálfu sér. Þar hafa stjórnvöld vissulega komið að málum og ýtt undir að af þessu geti orðið. Það er mjög ánægjulegt að verða vitni að því hversu mikla athygli Ísland hefur vakið í sambandi við vetnismálin og það sem við erum að gera í þeim efnum, auðvitað ekki síst núna eftir þá atburði sem áttu sér stað 11. september enda er mjög horft til Íslands í sambandi við vetnisframleiðslu. Allir gera sér grein fyrir úr hvaða heimshluta olían kemur fyrst og fremst.

Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að hafa fleiri orð um skýrsluna að sinni. Ég vil bara ítreka að ég tel að þetta séu miklir atburðir sem hafa átt sér stað þegar við höfum fengið íslenska ákvæðið samþykkt og við þurfum svo sannarlega ekki að fara neitt dult með það. Við sem höfum sem stjórnvald staðið að þessari framkvæmd gleðjumst og teljum að það skapi mikla möguleika á Íslandi í sambandi við atvinnuuppbyggingu, og um leið sé þetta jákvætt sem heimsviðburður vegna þess að með því að framleiða ál á Íslandi séum við að leggja okkar af mörkum til þess að minnka gróðurhúsaáhrif í heiminum.