2001-11-19 19:28:21# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[19:28]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort þessi mengunarkvóti sem nú virðist vera orðinn staðreynd hafi verið hafður í huga í þeim viðræðum sem hafa farið fram við Norðurál og vegna virkjanahugmynda og álvers fyrir austan og hvort verið geti að það hafi verið gengið út frá því að íslenska ákvæðið næði í gegn í þessum viðræðum. Glopruðu íslensk stjórnvöld kannski árangrinum af þessu úr höndum sér í viðræðum við fyrirtækin? Hæstv. ráðherra gæti upplýst okkur um þetta. Ég held að það sé mjög mikilvægt að fram komi hvaða hugmyndir íslensk stjórnvöld hafa um það hvernig eigi að fara með þennan mengunarkvóta gagnvart þessum aðilum ef það hefur ekki þegar verið skorið úr því með þeim hætti sem ég var hér að nefna.