2001-11-19 19:35:14# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[19:35]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðalkosturinn við álið er kannski sá að þar eru fjárfestar. Við verðum að taka mið af því hverjir eru tilbúnir að fjárfesta á Íslandi. Það eru þau fyrirtæki, eins og mál standa í dag, sem eru í álframleiðslu. Síðan getum við kannski litið á það sem alveg sérstakan bónus að það er --- og ég held því fram --- jákvætt fyrir umheiminn að ál sé framleitt á Íslandi þegar það kostar átta eða tíu sinnum meiri gróðurhúsaáhrif að framleiða ál í þeim löndum sem byggja á því að orkan sé framleidd úr olíu eða kolum.

Eins og ég lét koma fram í máli mínu áðan er samkvæmt spám gert ráð fyrir að á næstu tíu árum muni ársframleiðsla á áli aukast um 8 millj. tonna, 60% af þeirri auknu framleiðslu muni fá orku frá kolum og gasi en aðeins um 40% frá vatnsorku. Þetta finnst mér vera uggvænlegt. Hefur hv. þm. engar áhyggjur af þessu? Við vitum að haldið verður áfram að framleiða ál því að það er markaður fyrir ál, vaxandi markaður. Og þetta eru staðreyndirnar sem liggja á borðinu. Eigum við ekki að leggja okkar af mörkum sem höfum endurnýjanlega orku og getum stuðlað að minni gróðurhúsaáhrifum í heiminum? Höfum við ekki þær skyldur? Ég lít svo á að við höfum þær skyldur og vinn samkvæmt því.