2001-11-19 20:04:20# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[20:04]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Fyrst örlítil leiðrétting. Það er ekki rétt að ég hafi sagt að stjórnvöld væru ekkert að gera. Ég sagðist vilja sjá stjórnvöld verja jafnmikilli orku í að leita annars konar tækifæra en þeirra sem þeir hafa leitað hjá álframleiðendum.

En ég fagna því sem hæstv. ráðherra segir og auðvitað get ég hrósað hæstv. ráðherra fyrir það sem hún hefur sagt í fjölmiðlum síðustu daga varðandi þennan samning sem skóframleiðandinn okkar var að gera. Ég segi okkar vegna þess að við erum sameiginlega stolt af framtaki á borð við það sem X-18 stendur fyrir. Með því er ekki gengið á okkar náttúrlegu auðlindir á einn eða annan hátt. Ekki heldur í framtaki unga fólksins sem nefnt var. Við hæstv. iðnrh. deilum svo sannarlega ánægju yfir því þegar vel tekst til á þeim vettvangi sem hæstv. ráðherra gerir að umtalsefni. Ég vil sjá miklu meira af þessu tagi og miklu meira af orku af stjórnvalda fara í verkefni af því tagi sem hér voru nefnd en slappa af á stóriðjusviðinu.