2001-11-19 20:23:18# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[20:23]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Ég kem hingað einvörðungu til að lýsa furðu minni á ummælum hæstv. iðn.- og viðskrh. sem hún lét falla hér áðan. Ég gat ekki skilið hæstv. ráðherra öðruvísi en svo að menn ættu bara að sjá sóma sinn í því að fylkja sér að baki meiri hlutanum, hvort heldur það er stjórnarmeirihluti hér á Alþingi eða einhver annar meiri hluti sem hefur myndað sér einhverja tiltekna skoðun. Og geri menn það ekki séu þeir beinlínis og óbeinlínis, eins og hefur verið sagt margoft við umræðuna hér í dag, að vinna gegn þjóðarhagsmunum.

Herra forseti. Er þetta boðlegur málflutningur? Getur verið að hæstv. iðn.- og viðskrh. sé alvara með svona málflutningi? Hvert álítur hæstv. ráðherra hlutverk stjórnarandstöðunnar ef ekki er að veita uppbyggilega og gagnlega gagnrýni og veita stjórninni aðhald? Því ekki veitir af, herra forseti. Þetta kallar fram óþægileg hugrenningatengsl um hlutverk lýðræðisins og hvaða augum þessi hæstv. ríkisstjórn er farin að líta valdið og hlutverk sitt í þessu samfélagi.

Ég neita að trúa því, herra forseti, að hv. þm. komi hér upp og geti látið þessi orð falla í alvöru. Þó að meiri hlutinn hafi komið sér upp einhverri pólitískri skoðun getur það ekki líka verið skoðun þessa sama meiri hluta að það sé hin eina rétta skoðun. Svo er látið í það skína hér að þeir sem ekki séu sammála meiri hlutanum séu óþjóðhollir. Þetta er farið að minna mig á umræður sem urðu hér fyrir þrjátíu, fjörutíu, fimmtíu árum um utanríkismál og annað. Nú eru menn orðnir óþjóðhollir ef þeir fylgja ekki ríkisstjórn Davíðs Oddssonar í einu og öllu. Ja, þá fyrst kastar tólfunum, herra forseti.