2001-11-19 20:28:56# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[20:28]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er algjörlega inni á því að hv. þm. hafi fullan rétt á að vera ósammála ríkisstjórninni, ég hef aldrei vefengt þann rétt.

En það sem ég hélt fram í mínu máli áðan var það að hv. þm. stjórnarandstöðunnar, sumir hverjir, hafi viljað nota vald annarra þjóða til að koma í veg fyrir ákveðnar ákvarðanatökur hér á Íslandi sem varða það að nýta endurnýjanlega orku okkar til álframleiðslu. Fyrst þeir náðu því ekki fram heima í sínu þjóðþingi skyldi reynt að beita valdi annarra þjóða með því að koma ár sinni fyrir borð hjá þeim þjóðum til að koma í veg fyrir þessar ákvarðanir og þessa framleiðslu og þessa starfsemi. Og það finnst mér vera almennt í ósamræmi við þann málflutning þessara viðkomandi þingmanna að yfirþjóðlegt vald sé frekar af hinu illa.