2001-11-19 20:30:26# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[20:30]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er ég alveg hætt að skilja hæstv. iðnrh. Vald annarra þjóða. Bíddu, er stjórnarandstaðan komin í slagtog með einhverjum öðrum þjóðum? Hefur hæstv. iðnrh. ekki minnsta skilning á eðli alþjóðlegrar samvinnu? Veit hæstv. iðnrh. ekki um hvað þessir samningar snerust? Hún lætur að því liggja að í öðrum málum sé hið yfirþjóðlega vald stjórnarandstöðunni þóknanlegt. Það stendur ekki steinn yfir steini í þessum málflutningi, herra forseti. Ekki steinn yfir steini.

Það væri fróðlegt að vita, herra forseti, hvort hæstv. iðn.- og viðskrh. ætlar t.d. að beita sér gegn því að einhverjir fulltrúar stjórnarandstöðunnar geti orðið fulltrúar Alþingis á Ríó plús 10 ráðstefnunni í Suður-Afríku á næsta ári? Því það veit sá sem allt veit að ef fulltrúar stjórnarandstöðunnar fengju að fara þangað þá gæti hugsast að þeir hefðu aðrar skoðanir en fulltrúar ríkisstjórnarinnar.