2001-11-19 20:48:36# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[20:48]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel að það hafi ekki verið mikið hagsmunamál að setja þak á íslenska ákvæðið vegna þess að það er vistvænt eins og hér er nákvæmlega verið að benda á. Hins vegar vildu aðrar þjóðir að það yrði gert, m.a. til að ákvæðið væri auðskiljanlegra til útskýringar. Það var fallist á það.

Það er reyndar eitt sem má segja að sé líka jákvætt við þetta þak og það er að þá falla þessi FC-efni út en þau eru um 20% af losun úr álverinu. Það hlutfall fer reyndar minnkandi. Þessi FC-efni eða flúorkolefni eru mjög langlífar gróðurhúsalofttegundir, mjög slæmar fyrir lofthjúpinn, og það er hægt með tækni og góðum umhverfisvenjum að taka á þeim. En það er mjög erfitt að taka á losun á koldíoxíði. Koldíoxíð er inni í ákvæðinu en FC-efnin hafa dottið út úr því.