2001-11-19 20:54:31# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[20:54]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hótuðu ekki Íslendingar bara því að þeir mundu fara sínu fram? Það væri ekkert annað. Þeir ætluðu bara að fara sínu fram og yrðu ekkert með í þessu? Það er verið að kaupa þá inn í þetta, fallast á þetta eins og um óþekkan krakka væri að ræða sem gerði sínar kröfur. Og það er ekkert um annað að ræða en að koma til móts við hann í vissum aðstæðum. Þannig var það. Það er betra að hafa Íslendinga með og ná tökum á þeim en að þeir haldi áfram á þeirri braut sem þeir voru búnir að ákveða að vera á.

Hvort við erum óánægð eða ekki hlýtur að fara eftir því hvernig framhaldið verður á þessu öllu saman.

Er það svo að fyrirtækin sem núna eru komin hér í samningana eigi að njóta arðsins af þessu af því að þau þurfa ekki að kaupa mengunarkvóta, og hirða þetta þannig allt saman? Yfir hverju eigum við þá að gleðjast? Haldið þið að fyrirtæki hefðu ekki getað keypt mengunarkvóta til að komast hér í ódýrt rafmagn og haldið áfram að byggja upp slíka stóriðju hér á Íslandi? Ég veit ekki yfir hverju ég á að gleðjast eftir að búið er að upplýsa það hér í umræðunum að menn hafi horft gjörsamlega fram hjá þessu í þeim samningaviðræðum sem menn hafa setið yfir gagnvart þessum fyrirtækjum sem verið er að reyna að laða hingað.