2001-11-19 21:01:13# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[21:01]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Ég tel að ef íslenska ákvæðið hefði ekki verið samþykkt þá hefði verið mjög vafasamt að Ísland hefði gerst aðili að Kyoto-bókuninni. En það hefði verið fáránlegt að samþykkja ekki íslenska ákvæðið vegna þess að hnattrænn ávinningur er af því. Af hverju haldið þið að aðrir umhverfisráðherrar hafi samþykkt það? (Gripið fram í.) Af hverju haldið þið það? Það er vegna þess að ávinningur er af þessu ákvæði. Það er í anda Kyoto-bókunarinnar.

Hins vegar var verið að útvatna samninginn á síðustu metrunum og þá var ekki verið að samþykkja nein ákvæði sem voru í anda Kyoto-bókunarinnar. Nei, það var verið að samþykkja bindingu í eldri skógi sem var til hérna löngu áður en menn fóru að tala um Kyoto-bókunina. Það er ekki í anda Kyoto-bókunarinnar. Það var samt samþykkt.

Að sjálfsögðu var því eðlilegt að ríki heims samþykktu íslenska ákvæðið sem var í anda Kyoto-bókunarinnar. Og þau samþykktu fullt af öðrum ákvæðum sem voru ekki í anda hennar.

Ég átta mig því ekki á því af hverju stjórnarandstaðan getur ekki bara viðurkennt það hér og nú þegar öll önnur ríki hafa viðurkennt það, umhverfisráðherrar allra annarra ríkja hafa viðurkennt það og samþykkt íslenska ákvæðið, að það sé ágætt og í anda bókunarinnar. En þó þverskallast menn hér við alveg endalaust.