Synjun um utandagskrárumræðu

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 13:35:32 (1763)

2001-11-20 13:35:32# 127. lþ. 32.91 fundur 147#B synjun um utandagskrárumræðu# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[13:35]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa yfir furðu minni á því að hæstv. menntmrh. skuli neita því að taka þetta mál hér upp við hv. þm. í umræðu utan dagskrár, þ.e. stöðu tónlistarnáms í landinu. Telur hæstv. ráðherra það virkilega ekki í sínum verkahring að ræða þá alvarlegu stöðu sem komin er upp um stöðu tónlistarnáms í kjölfar þess langvinna verkfalls sem nú stendur yfir?

Það er fráleitt af hæstv. ráðherra að ætla að þvo hendur sínar af málinu með þessum hætti og sú staðreynd að hann skuli neita hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur umræðu hér um málið sýnir meira en margt annað að hann hefur slæman málstað að verja.

Herra forseti. Það er slæmt að hæstv. ráðherra skuli neita umræðu af þessu tagi og er kannski enn eitt dæmið um það hvernig framkvæmdarvaldið í tíð þessarar hæstv. ríkisstjórnar sýnir löggjafarvaldinu aftur og aftur vanvirðingu sem er algerlega ólíðandi.

Við höfum nýlegt dæmi þess að hæstv. ráðherra neitaði þingmanni um upplýsingar sem seinna kom í ljós að hún átti lögvarinn rétt á að fá og þurfti úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamálefni til. Við höfum nýlegt dæmi þess að fram komu rangar upplýsingar, röng lagatúlkun að mínu mati og a.m.k. verulega villandi upplýsingar í fyrirspurn vegna sölu ríkisjarða sem hefur verið rædd margoft hér.

Herra forseti. Ef þetta heldur áfram að þróast í þessa veru að hv. þm. er ekki gefið færi á því að sinna starfi sínu og hæstv. ráðherrar neita að koma að málinu eða neita að gefa upplýsingar þá held ég að það hljóti að koma að því, herra forseti, að þessi 50. gr. þingskapalaganna um utandagskrárumræður, a.m.k. túlkun hennar, verði tekin til endurskoðunar þannig að ekki þurfi atbeina ráðherra til að ræða hér mikilvæg mál. Það hefur ekki verið reyndin, eftir því sem mér skilst, að túlka þessa grein þannig þótt orðalag hennar gefi tilefni til þess að hún sé túlkuð þannig. Það hefur ekki verið hefðin hér. En, herra forseti, er ekki komið tilefni til þess að endurskoða túlkunina á þessari grein?