Synjun um utandagskrárumræðu

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 13:37:46 (1764)

2001-11-20 13:37:46# 127. lþ. 32.91 fundur 147#B synjun um utandagskrárumræðu# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[13:37]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er fáheyrt og gagnrýni vert að ráðherrar neiti að taka þátt í umræðu af þessu tagi um mál sem óumdeilanlega eru á sviði hæstv. ráðherra. Afleiðingar þessa verkfalls á skólahald í landinu og á tónlistarfræðslu almennt, á menningu og listir, eru óumdeilanlega hluti af því sem á að heyra undir hæstv. menntmrh. En það er náttúrlega ekki nýtt að hæstv. menntmrh. Björn Bjarnason hlaupi úr hlutverkinu þegar það hentar honum og ber þá alls enga ábyrgð á skólahaldi í landinu eða öðrum slíkum þáttum þegar hann vill síður verða til að svara fyrir um óþægilega hluti. En það vantar svo ekki að hæstv. ráðherra viti af því að hann sé ráðherra þar fyrir utan.

Það er annað, herra forseti, mjög alvarlegt við þetta mál. Það er sú niðurstaða forseta að synja viðkomandi þingmanni um umræðuna í ljósi viðbragða ráðherra. Það er mjög alvarleg túlkun á 50. gr. þingskapalaga og ég mótmæli henni. Rétturinn er þingmannsins og hann er sjálfstæður og valdið liggur ekki hjá viðkomandi ráðherra til að koma í veg fyrir umræðuna með því að neita að taka þátt í henni. Þá væri þessi réttur enginn og ákvæðið gagnslaust í reynd.

Herra forseti. Þegar þetta ákvæði um hálftíma umræðurnar kom inn í þingsköpin þá varð það til þess að draga úr ótímabundnum almennum utandagskrárumræðum sem áður voru eina úrræðið samkvæmt þingsköpum. Þær umræður voru ekki bundnar við að beina spurningum til ráðherra heldur gátu menn tekið þar upp mál almenns eðlis og þurftu ekki frekar en þeir vildu að beina spurningum til ráðherra. Það liggur því í bakgrunni þessa máls og sögu þess að það er beinlínis háskalegt að túlka þetta þannig að ráðherrar hafi það í valdi sínu, með því að synja um þátttöku í umræðu af þessu tagi, að koma í veg fyrir að hún verði. Þingmenn hafa þarna sjálfstæðan rétt og það verður að vera svo.

Hitt er svo annað mál að ekki er við því að búast, og vonandi er það ekki svo að það gerist oft, að hæstv. ráðherrar neiti beinlínis að svara fyrir um mál sem eru á þeirra verksviði því að réttur þingmannsins er þarna líka bundinn við að beina spurningum til hæstv. ráðherra með sama hætti og í óundirbúnum fyrirspurnatímum o.s.frv. Hvernig sem á málið er litið er því þessi niðurstaða ráðherrans og reyndar líka forseta þingsins óviðunandi og ámælisverð.