Upplýsingaskylda ráðherra

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 13:50:12 (1771)

2001-11-20 13:50:12# 127. lþ. 32.95 fundur 151#B upplýsingaskylda ráðherra# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[13:50]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Þetta undanhald hæstv. landbrh. í þessu máli er hálfgrátbroslegt. Nú skal skautað undir væng hæstv. forsrh. og leitað úrskurðar hans í málinu. Auðvitað hefur hann ekkert úrskurðarvald í málum af þessum toga. Það hafa allir vitað allt frá því að hæstv. ráðherra kom fram með þann málatilbúnað sem hér var réttilega harðlega gagnrýndur, að það gæti verið leyndarmál hvernig fulltrúar framkvæmdarvaldsins færu með eignir ríkisins, á hvaða verði þær væru seldar og hverjir keyptu, og hæstv. ráðherra hefur áttað sig á því hvers konar villur hann fór. Hann hefur áttað sig á því að einhverjir lögfræðilegir ráðunautar hans í hinu háa ráðuneyti hafa ekki ráðið honum heilt.

Nú væri auðvitað hæstv. landbrh. maður að meiri að hætta þessu undanhaldi, koma fram tígulegur í fasi eins og hans er venja og upplýsa þingið um hið sanna og rétta í málinu en vera ekki með þennan kattarþvott, vera ekki að reyna að tefja hið óhjákvæmilega, nefnilega það að hann mun að endingu verða að standa skil á því hvernig hann eða aðrir ráðherrar ráðstafa eignum ríkisins. Það er ekki þeirra sjálfdæmi. Þegar heimild um sölu hefur komið frá hinu háa Alþingi þá er það auðvitað skýlaus réttur Alþingis að fá um það nákvæmar upplýsingar hvernig með þá heimild var farið.

Herra forseti. Ég vænti þess að hæstv. landbrh. átti sig áður en dagur líður. Þetta bréf má fara, það gerir auðvitað ekki neitt, en að hann komi áður en vikan er liðin með þær upplýsingar sem um var beðið. Þær eru allar fyrirliggjandi. Það vantar einfaldlega viljann og þegar vel árar hjá hæstv. ráðherra og vel á honum liggur, þá er hann dugmikill í fasi og getur kastað sér fram. Ég vænti þess að hann sjái að sér. Það er tími til kominn.