Upplýsingaskylda ráðherra

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 13:52:23 (1772)

2001-11-20 13:52:23# 127. lþ. 32.95 fundur 151#B upplýsingaskylda ráðherra# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[13:52]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra vill hafa það sem sannara reynist og ég held að þá væri best að hann kæmi hér og svaraði þeim spurningum sem spurt var um. Það er fáránlegt að fara að biðja forsrh. um lagatúlkun. Við höfum mjög öfluga nefndadeild og mjög færa lögfræðinga sem geta komið við lagatúlkun og þeir hafa gert það nú þegar og fram hefur komið í áliti frá þeim að hæstv. ráðherra beri að svara mér í þessu tilfelli þeim spurningum sem ég hef lagt fram.

Ég held að hæstv. ríkisstjórn verði að athuga sinn gang og ég minni á að upplýsingalög gilda ekki um alþingismenn. Við höfum lögvarinn rétt í stjórnarskránni til þess að fá svör við spurningum okkar.

Það er annað sem er mjög alvarlegt í svari hæstv. ráðherra til mín um seldar ríkisjarðir og það er að þær jarðir sem hann gefur upp í svarinu til mín sem seldar hafa verið í tæp tvö ár undanfarið, fara ekki saman við þær upplýsingar sem eru í ríkisreikningi. Það eru ekki sömu jarðirnar sem eru gefnar upp í svarinu og koma fram í ríkisreikningi. Og það verður hæstv. ráðherra einnig að svara fyrir. Hvernig stendur á því að ekki eru alfarið sömu upplýsingar í ríkisreikningi og frá hæstv. ráðherra í því sem hann þó svaraði?

Herra forseti. Ég held að nauðsynlegt sé fyrir hæstv. ráðherra að koma með svör við því sem spurt var um í fyrirspurninni um ríkisjarðirnar. Þetta fer að verða pínlegt fyrir hæstv. ráðherra að vera að draga svörin með öllum mögulegum kúnstum og þar á meðal einhverju bréfi til forsrh. um lagatúlkun. Ég ráðlegg hæstv. ráðherra, herra forseti, að leita til nefndadeildar Alþingis, þeir eru þar með svör á reiðum höndum, og að hæstv. ráðherra komi síðan með svör við þeim spurningum sem lagðar hafa verið fyrir hann.