Upplýsingaskylda ráðherra

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 13:56:48 (1775)

2001-11-20 13:56:48# 127. lþ. 32.95 fundur 151#B upplýsingaskylda ráðherra# (aths. um störf þingsins), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[13:56]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessi góðu viðbrögð sem komu mér að vísu ekki á óvart því að stjórnarandstaðan er í pólitík og reynir að halla réttu máli.

Hér eru tveir úrskurðir sem fallið hafa samkvæmt upplýsingalögum sem Alþingi setti og ég hef talið mér skylt að fara eftir. Nú liggur það fyrir að nefndadeild Alþingis hefur sagt mér að viðhorf hennar hafi verið oftúlkuð hér á fundi um daginn. Fyrir utan hitt að hæstv. forsrh. fer með upplýsingalögin. Þess vegna þykir mér rétt að fá viðbrögð hans við þeim mismun sem er á milli ríkisbókhalds og landbrn. í þessu efni. Ég hef engu að leyna eins og ég hef sagt.

Landbrn. býr nú við þær reglur að Ríkisendurskoðun, Sigurður Þórðarson, sem er framlengdur armleggur Alþingis og kíkir undir sængina öðru hverju að gá hvort ekki sé allt í lagi, hann setti reglurnar sem nú er starfað eftir í landbrn. þannig að ég hef ekkert að fela. (Gripið fram í.) Allar jarðir hafa verið seldar í gegnum Ríkiskaup. Ég get auðvitað sjálfur og vildi gjarnan leggja allar upplýsingar alla síðustu öld hér á borðið. (Gripið fram í.) En þá kæmi það kannski fram að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon keypti ekki og seldi undir sömu ströngu reglunum og sá sem hér stendur. Ég hef því ekkert að fela. (Gripið fram í.) Ég vil hins vegar ekki brjóta persónurétt eða upplýsingalög (Gripið fram í: Upplýsingalög gilda ekki ...) eða upplýsingalög. (Gripið fram í.) Hæstv. forseti. ...

(Forseti (GuðjG): Hæstv. landbrh. hefur orðið.)

Þessi fundur minnir dálítið á ónefnda samkomu í sveitinni öðru hvoru. (Gripið fram í: Hvaða sveit?) En ég vil bara hafa það á hreinu að ég hef skrifað hæstv. forsrh. bréf til að fá úr þessu skorið því að ég vil virða þann rétt þingmanna að þeir fái allar þær upplýsingar af minni hálfu sem þeir eiga rétt á og ég má veita þeim. Þess vegna bíð ég þess svars og þá tölum við saman aftur í lok þess.