Staða sjúkraliða innan heilbrigðiskerfisins

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 14:09:45 (1778)

2001-11-20 14:09:45# 127. lþ. 32.94 fundur 150#B staða sjúkraliða innan heilbrigðiskerfisins# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[14:09]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Upplýst er hér af hv. málshefjanda að innan við helmingur af menntuðum sjúkraliðum er í störfum sem slíkur og jafnframt er upplýst og hefur svo sem lengi legið fyrir að það vantar fleiri hundruð, jafnvel allt að 800--900 sjúkraliða til starfa í landinu. Þetta er ástandið samtímis því að við blasir að flótti er úr stéttinni. Sjúkraliðar leita sér unnvörpum annarra starfa. Vinnuálag er víða mjög mikið, deildir eru reknar verulega undirmannaðar og í rauninni reknar áfram á tryggð starfsfólks við sjúklinga, starf sitt og hugsjón. Slíkt getur auðvitað ekki gengið endalaust, herra forseti, enda eru dæmi um að deildir tæmist nánast á einu bretti vegna þess að hópurinn sem þar hefur snúið bökum saman og haldið uppi starfseminni við erfiðar aðstæður gefst allur upp samtímis.

Kjaradeilan sem nú geisar bætir auðvitað ekki úr. Það er með ólíkindum, herra forseti, hversu erfitt það virðist vera að leiðrétta laun sérstaklega þegar láglaunastéttir, umönnunarstéttir og kvennastéttir eiga í hlut, en það á allt við, herra forseti, í þessu tilviki.

Sjúkraliðar með byrjunarlaun sín upp á innan við 90 þús. kr. mega standa í langvinnu verkfalli til þess að svo mikið sem talað sé við þá. Það er alveg ljóst, herra forseti, að verði ekki tekið á þeim vanda sem við blasir varðandi mönnun í heilbrigðiskerfinu og það gildir um fleiri hópa en sjúkraliða, þá stefnir í mikinn vanda á Íslandi innan fárra ára og Ísland gæti komið til með að vera í svipaðri stöðu og t.d. Noregur, að þurfa að flytja inn og kosta dýrum dómum til starfsfólk í stórum stíl til að reka sína undirstöðuheilbrigðisþjónustu. Þess vegna heiti ég á hæstv. heilbrrh. og aðra góða menn sem þarna geta komið til skjalanna að fara í löngu tímabærar aðgerðir til að taka á þessum málum.