Fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 14:53:04 (1790)

2001-11-20 14:53:04# 127. lþ. 32.2 fundur 282. mál: #A fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi# (gjald fyrir rekstrarleyfi) frv. 153/2001, LB
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[14:53]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristján L. Möller hefur í stórum dráttum farið yfir þetta mál í ræðu sinni. Hann gerði ágæta grein fyrir afstöðu okkar til málsins líkt og síðasta vor.

Ástæðan fyrir því, virðulegi forseti, að ég kem upp og fylgi þessu aðeins eftir er sú að þegar þetta mál er skoðað, þó ekki sé það stórt, endurspeglar það að mínu mati stærri hluti, núna undanfarin sex til sjö ár í tíð núverandi ríkisstjórnar. Útþensla ríkisins hefur verið u.þ.b. 80% frá því að hæstv. ríkisstjórn kom til valda. Það eru einmitt lítil mál eins og þessi sem endurspegla þessa þróun betur en margt annað.

Þegar þetta er skoðað og borið saman við fjárlögin er alveg ljóst að þær álögur sem við höfum hér leyft okkur að kalla leigubílaskatt og rútuskatt, og væntanlega koma inn á næsta ári, þ.e. ef Alþingi afgreiðir frv. sem hér liggur fyrir, munu nema samanlagt u.þ.b. 30 millj. kr. Það stendur til að leggja 30 millj. kr. á þessar stéttir.

Þessu frv. og þessum hugmyndum fylgir að færa á þessi verkefni frá samgrn. yfir til Vegagerðarinnar, þ.e. verkefni með áætlaðar tekjur upp á 30 millj. kr. á að færast frá samgrn. yfir til Vegagerðarinnar. Maður hefði haldið, í ljósi þessara umfangsmiklu verkefna og þessarar auknu skattheimtu, að þá mundi maður sjá þess merki, að þegar jafnvíðfeðm og stór verkefni eru flutt af einum stað á annan þá mundi maður væntanlega sjá niðurskurð í aðalstjórn eða yfirstjórn samgrn., það væri eðli málsins samkvæmt. Þegar verkefni sem kosta að mati þeirra sjálfra 30 millj. eru flutt frá A til B, þá hefði maður haldið að dregin yrði saman starfsemin hjá þeim sem höfðu verkefnin fyrir. Ég held að það sé ekkert óeðlilegt að draga þessa ályktun.

Virðulegi forseti. Síðan lítur maður í fjárlögin og þar segir að framlög til aðalskrifstofu samgrn. hækki um 10,3 milljónir. Framlög til aðalskrifstofu hækka um 10,3 milljónir þrátt fyrir að færð séu verkefni frá aðalskrifstofu, sem menn meta að kosti 30 milljónir. Það er einmitt þetta, virðulegur forseti, sem hefur verið að gerast undanfarin ár. Það eru svona smámál þar sem verið er að leggja á skatta og álögur sem að sjálfsögðu fara bara út í verðlagið því á endanum er það vitaskuld viðskiptavinurinn sem borgar þetta, það er ekki í aðra vasa að leita.

Þetta endurspeglar starfsemi ríkisstjórnar sem hér hefur setið vitaskuld allt of lengi, þessar sífelldu álögur enda hafa ríkisumsvif aukist um u.þ.b. 80% frá því að hún tók við árið 1995. Í sjálfu sér er ekki miklu við þetta að bæta, þ.e. öðru en því að ég held að hæstv. samgrh. skuldi okkur einhverjar skýringar.

Það er kannski allt í lagi að nefna það hér að í fyrravetur voru embættismenn ráðuneytisins mjög duglegir og stóðu sig mjög vel í að sannfæra samgn. um að mikilvægt væri að færa þessa málaflokka frá yfirstjórn eða aðalskrifstofu samgrn. yfir til Vegagerðarinnar, því að það væri svo mikil umsýsla í kringum þetta. Þess vegna er ekkert óeðlilegt að spyrja: Hvers vegna sjáum við þess ekki stað í fjárlagafrv. þegar svo stór og mikilvæg verkefni eru flutt frá ráðuneytinu yfir til undirstofnana? Hví sjást ekki um það merki í ráðuneytinu að verið sé að draga saman seglin?

Niðurstaðan er einfaldlega sú að hér er verið að leggja á viðbótarálögur, hér er aðeins verið að stækka báknið og mönnum virðist gleymdur sá frasi sem hljómaði hér á síðari hluta síðustu aldar um að báknið skyldi burt, gott ef Sjálfstfl. leiddi ekki þá umræðu markvisst. Þær hugmyndir eru vissulega löngu gleymdar ef marka má þetta frv.

Ég held að hæstv. ráðherra skuldi okkur skýringu. Þessi umræða fór fram mjög stíft í samgn. og málið var mikið rætt. Lögð var á það mikil áhersla að umsvif þessarar starfsemi væru slík, og því hljótum við að spyrja: Hvernig má það vera að við sjáum ekki samdrátt í starfsemi yfirstjórnar eða aðalskrifstofu samgrn. þegar svona víðfeðm og stór verkefni eru færð frá ráðuneytinu yfir til undirstofnana? Þetta er sú spurning sem ég ætla að beina til hæstv. samgrh. og ég vænti þess að það komi skýr og greinargóð svör við henni.