Skráning skipa

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 15:15:45 (1797)

2001-11-20 15:15:45# 127. lþ. 32.3 fundur 285. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[15:15]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um skráningu skipa, nr. 115/1985, með síðari breytingum. Það er stjórnarfrv., 285. mál þingsins á þskj. 347.

Með frv. því sem hér er lagt fram, um breytingu á lögum um skráningu skipa nr. 115/1985, er opnað fyrir þann möguleika að fiskiskip sem skráð er á íslenska skipaskrá verði þurrleiguskráð á erlenda skipaskrá án þess að vera afskráð af íslensku skipaskránni.

Frv. er samið af nefnd sem samgrh. skipaði en í nefndinni voru fulltrúar frá samgrn., utanrrn. og sjútvrn.

Með lögum nr. 153/2000, um breytingu á lögum um skráningu skipa, var gerð sams konar breyting og hér er til umfjöllunar en hún varðaði einvörðungu kaupskipin. Þá var heimilað að skrá íslensk kaupskip á íslenska skipaskrá þegar íslenskir aðilar hafa aðeins umráð skipsins með þurrleigusamningi. Jafnframt var heimilað á sama hátt og lagt er til með þessu frv. að kaupskip á íslenskri skipaskrá verði þurrleiguskráð á erlenda skipaskrá án þess að vera afmáð af íslensku skipaskránni.

Tilgangur frv. er að greiða fyrir og auka möguleika íslenskra útgerða á að nýta skip sín til verkefna erlendis. Hins vegar er lagt til að sett verði mjög ströng skilyrði fyrir slíkri heimild og við það miðað að þurrleigð skip stundi aðeins veiðar sem íslensk skip ættu annars ekki kost á. Veiðiheimildir annarra ríkja, innan eða utan lögsögu þeirra, er yfirleitt einungis hægt að nýta með skipum er bera fána viðkomandi ríkis. Íslenskar útgerðir sem hafa sóst eftir að nýta veiðiheimildir annarra ríkja hafa fært skip sín undir erlendan fána í þessum tilgangi og leigt þau til tengdra eða ótengdra aðila í erlenda ríkinu. Í þeim tilvikum hafa þau afskráð skip sín af íslenskri skipaskrá, skráð þau í öðru ríki, jafnvel þurrleiguskráð þau þaðan, og siglt undir fána þess ríkis sem á veiðiheimildirnar sem ætlunin er að nýta. Mikil fyrirhöfn og kostnaður er þessu samfara fyrir útgerðir skipanna. Sem dæmi má nefna rækjuveiðar undir rússneskum fána í Barentshafi, rækjuveiðar undir fánum Eystrasaltsríkjanna á Flæmingjagrunni og þorskveiðar undir færeyskum fána í Barentshafi. Veiðar þessara skipa yrðu því hrein viðbót við þau verkefni sem íslenski flotinn getur nú stundað. Í því felast ekki aðeins auknar tekjur fyrir útgerðir heldur einnig fleiri atvinnutækifæri fyrir íslenska sjómenn og auknar tekjur fyrir íslenskt þjóðarbú. Hinn meginkosturinn er að íslenskar útgerðir gætu nýtt þurrleiguskráningu til að bæta réttarstöðu sína við sölu á skipum til erlendra aðila með kaupleigusamningi.

Eins og áður sagði er með frv. þessu lagt til að heimilt verði að fiskiskip sem skráð er á íslenska skipaskrá verði þurrleiguskráð á erlenda skipaskrá án þess að vera afskráð af íslensku skipaskránni.

Með þurrleiguskráningu er átt við skráningu skips þegar gerður er samningur um leigu á skipi milli ríkisborgara eða lögaðila tveggja ríkja. Leigutaki getur ýmist verið tengdur leigusala eða ótengdur honum. Leigusali getur komið upp fyrirtæki í öðru landi, t.d. með þátttöku þarlendra aðila, sem uppfyllir kröfur þess ríkis um eignarhald. Þetta fyrirtæki gæti þurrleigt skipið af móðurfyrirtækinu. Í öðrum tilvikum gæti leigutakinn verið ótengdur leigusala með öllu. Kjósi eigendur íslenskra fiskiskipa að nýta sér heimild til að þurrleiguskrá skipið erlendis mun það sigla undir fána erlenda ríkisins og gilda lög þess um allan rekstur skipsins, þar með talin um veiðileyfi, veiðieftirlit, öryggismál, kjaramál, tryggingamál og atvinnuréttindi sjómanna. Hins vegar verða veðbönd skips sem skráð er með þessum hætti áfram skráð hjá þinglýsingarstjórnum hér á landi.

Nefndin sem vann frv. viðaði að sér upplýsingum og gögnum um alþjóðasamninga er varða málið og skoðaði þá með hliðsjón af mögulegri þurrleiguskráningu frá íslenskri skipaskrá. Einnig aflaði utanríkisráðuneytið upplýsinga, í gegnum nokkur sendiráð Íslands, um löggjöf erlendra ríkja um þurrleiguskráningu og úthlutun veiðiheimilda erlendis. Loks aflaði hún upplýsinga um löggjöf í Danmörku og Færeyjum um skráningu skipa í þessum löndum. Þar er þurrleiguskráning heimiluð, en það felur í sér heimild til þurrleiguskráningar á og frá skipaskrám þessara landa. Í Danmörku er heimildin bundin við kaupskip. Niðurstaða nefndarinnar var að þurrleiguskráning væri heimil samkvæmt þjóðarétti að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Nefndin sem vann að frv. leitaði álits hagsmunaðila á málinu. Af hálfu stéttarfélaga sjómanna hafa komið fram sjónarmið um að engin rök standi til þess að veita heimild til þurrleiguskráningar fiskiskipa. Þar komu fram sjónarmið um að þrýstingur muni aukast á að útlendingar starfi áfram á þessum skipum þegar þau koma aftur til Íslands, samningsstaða sjómanna versni að því er kjaramál varðar, að verið sé að sækjast eftir ódýru erlendu vinnuafli í samkeppni við íslenska sjómenn, útgerðir mundu nota þurrleigu til þess að stunda veiðar undir erlendum fána sem mætti stunda undir íslenskum fána í því skyni að draga úr kostnaði við veiðarnar og óvissa gæti ríkt um réttarstöðu áhafnar, eigenda og skips gagnvart öðrum ríkjum.

Þessi sjónarmið stéttarfélaga sjómanna hafa verið skoðuð ítarlega við gerð frv. og reynt að koma til móts við þau. Gildandi lög kveða á um að til þess að unnt sé að ráða erlenda sjómenn á skip sem siglir undir íslenskum fána þurfi þeir að fá viðurkenningu á atvinnuskírteinum sínum. Auk þess þurfa þeir atvinnuleyfi á Íslandi ef þeir koma frá löndum utan EES-svæðisins og skylt er að leita umsagnar viðkomandi stéttarfélaga áður en atvinnuleyfi er veitt. Sé atvinnuleyfi veitt fá viðkomandi sjómenn laun samkvæmt íslenskum kjarasamningum.

Frv. kveður á um að heimild til þurrleiguskráningar verði ekki veitt nema skip sem sigla undir þjóðfána Íslands geti ekki stundað fyrirhugaðar veiðar. Það hefur jafnframt komið fram við undirbúning þessa máls að íslenskar útgerðir kjósa að hafa íslenska sjómenn um borð að meira eða minna leyti í skipum sem veiða utan íslenskrar fiskveiðilögsögu, m.a. til þess að draga úr þeirri áhættu sem fylgir því að leigja frá sér dýr atvinnutæki. Hins ber þó að geta að heimild íslenskra sjómanna til að starfa á þurrleigðum skipum er háð reglum fánaríkisins um atvinnuleyfi.

Ég vil að lokum lýsa þeirri von minni að frv. þetta nái fram að ganga á Alþingi. Með samþykkt þess munu tvímælalaust skapast aukin tækifæri fyrir íslenska sjómenn og íslenskar útgerðir og auknar tekjur fyrir íslenskt þjóðarbú. Ég vil að lokum leggja til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. samgn.