Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 15:55:06 (1804)

2001-11-20 15:55:06# 127. lþ. 32.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[15:55]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar í upphafi þessarar umræðu að fá svör við ákveðnum spurningum sem vakna við það að hlusta á ráðherrann og lesa þetta frv. Þar er gert ráð fyrir því að ráðherra fái það í sínar hendur að ákveða hvort fiski, sem hér er kallaður verðlaus, verði hent fyrir borð. Hér er t.d. talað um verðlausan fisk, innyfli, hausa og því um líkt. Nú vita allir hér að hausar t.d. eru alls ekki verðlaus afli og því er ekki rétt að orða þetta eins og þarna er gert, að það sé verðlaus fiskur.

Því spyr ég: Ætlar ráðherrann að beita sér fyrir því að fullvinnsluskipin komi með allan afla að landi? Ef það er ekki meiningin, sér hann þá ekki ýmsa annmarka á því að fylgja þessu eftirliti eftir ef sum skip mega henda hluta af afla sínum í sjóinn en önnur ekki?

Ég tel mjög mikilvægt að ráðherra geri grein fyrir því strax í upphafi umræðunnar hvort stefna hans í þessu máli sé sú að allur afli sem kemur um borð í fiskiskip, fyrir utan kannski slóg, eigi að koma að landi og hvort hann ætli að beita þeim reglum sem verið er að tala um að setja hér til að tryggja að allur afli komi að landi.