Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 16:19:11 (1813)

2001-11-20 16:19:11# 127. lþ. 32.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv., SI (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[16:19]

Sigríður Ingvarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þeir sem eiga að hætta í útgerð eru þeir sem hafa ekki veiðiheimildir. Það er ekki hægt eingöngu að leigja til sín þorskveiðiheimildir í takmörkuðum mæli og ætla að gera út á þær. Það gengur hreinlega ekki upp. Markmiðið með umræddu frv. er að tryggja enn frekar góða umgengni um auðlindir hafsins og það er eitthvað sem við hljótum að vera öll sammála um að þurfi að gera. Það hefur alltaf verið stundað brottkast eins og oft hefur komið fram og það hefur verið af ýmsum ástæðum, ekki bara vegna kvótakerfisins. Ég vil nefna brottkast á uppsjávartegundum eins og síld og loðnu. Þegar næturnar fyllast og ekki eru aðstæður til að gefa öðrum bátum vegna óveðurs eða þess að bátarnir eru nálægt landi hefur þurft að sleppa úr nótunum svo og svo miklum afla, þúsundum tonna eins og bent hefur verið á. Það eru ekki afleiðingar kvótakerfisins, eða hvað?