Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 16:32:14 (1823)

2001-11-20 16:32:14# 127. lþ. 32.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[16:32]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum frv. til laga um breytingu á lögum nr. 57 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Ég vil byrja á því að geta þess að ég efast ekkert um að í 1. gr. er strax mjög góður ásetningur um að bæta umgengnina um nytjastofna sjávar. En það sem við í nefndinni þurfum að ræða alvarlega er stór ágalli á þessum ásetningi sem kemur fram í síðari hluta 2. mgr. en þar er sett í vald ráðherra, með leyfi forseta:

,,Þá getur ráðherra með reglugerð ákveðið að heimilt sé að varpa fyrir borð verðlausum fiski og innyflum, hausum og öðru því sem til fellur við verkun eða vinnslu um borð í veiðiskipum.``

Virðulegi forseti. Ég er sannfærður um það að við á hinu háa Alþingi eigum ekki að setja þessar ákvarðanir í hendur framkvæmdarvaldsins. Við eigum að setja skýran ramma um það hverng við ætlum að nýta auðlindina með lögum. Það er varla sanngjarnt að það sé lagt á herðar hæstv. sjútvrh. hverju sinni að meta þetta vegna þess að við vitum að frá þeim sem útgerðina stunda er mjög mikill þrýstingur hverju sinni. Það fer eftir verði á þessum svokölluðu hliðarafurðum hverju sinni hvort þeir vilja hirða þær eða ekki.

Virðulegi forseti. Við í endurskoðunarnefndinni um sjávarútvegsstefnuna fengum upplýsingar í vor hjá stóru og virtu fyrirtæki á Dalvík og það var mat þess fyrirtækis að bara hausarnir sem hent er --- a.m.k. á þeim tíma. Nú skilst mér að farið sé að nýta meira af þeim vegna hækkandi verðs --- en þá mat fyrirtækið að verið væri að henda í sjóinn hausum fyrir 3,2 milljarða. Það er ekkert smábúsílag sem þar er um að ræða.

Síðari hluti 3. mgr. er stórpólitískt mál sem hið háa Alþingi verður að taka á. Hvorum megin ætlum við að láta þessa ákvarðanatöku liggja? Hvernig ætlum við að hafa þennan ramma? Ég held að það sé vondur ráðahagur að sjútvrh. hverju sinni, vegna þess að hann er ævinlega undir þrýstingi vegna verðs, sé látinn ákveða hvað má fara í sjóinn. Við eigum að hafa skýr lög um þetta og við eigum að fá allt að landi.

Við skulum bara fara af sjónum og upp á land. Við mundum aldrei sætta okkur við það þegar búið er að gefa út veiðileyfi á hreindýr uppi á heiðum að einungis væri leyfilegt að hirða lærin og hryggin og skilja hitt eftir, henda því. Við eigum aldrei að sætta okkur við að bara sé leyfilegt að hirða það sem best selst hverju sinni af auðlindinni.

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því þegar við Íslendingar hófum að gera við skip sem Evrópubandalagsþjóðirnar áttu og líka austantjaldsþjóðirnar --- þetta voru togarar sem voru látnir veiða á úthafinu, frystitogarar --- og þegar þeir komu til viðgerða á Íslandi fengu þessir menn furðulega ráðgjöf vegna þess að um borð í þessum skipum, líka rússnesku skipunum, þýsku skipunum, austur-þýsku skipunum og pólsku skipunum voru vinnslulínur þannig að ekki fór uggi til spillis. Það var framleidd melta og það var framleitt mjöl. Íslendingar sem allt kunna í sjávarútvegsmálum ráðlögðu öllum þessum aðilum að rífa öll þessi tæki úr skipunum til þess að geta stundað sjávarútveg á sama hátt og við gerum, þ.e. með hagnaði. Þessir aðilar höfðu fyrir löngu síðan áttað sig á því að leikreglurnar áttu alltaf frá upphafi að vera þannig að allt sem um borð kæmi væri nýtt. Það er meginmálið.

Virðulegi forseti. Þess vegna mun ég ekki sætta mig við það fyrirkomulag, þegar við förum að fjalla um þetta mál í nefndinni og það er pólitík í málinu, ég mun ekki sætta mig við að það verði sett í hendur hæstv. sjútvrh. hverju sinni að ákveða þetta. Þá er allt of mikið návígi við markaðinn, við þá sem útgerðina stunda. Við skulum taka þetta þingmál fyrir á hinu háa Alþingi og breyta því þannig að menn geri sér alveg grein fyrir því að við viljum ekki að auðlindin sé nýtt á þann hátt sem gert er núna.

Ef meltan selst ekki á því verði sem menn vilja, ef hausarnir seljast ekki á því verði sem menn vilja, ef dálkarnir seljast ekki á því verði sem menn vilja þá vilja þeir henda þeim. En ef ramminn er útbúinn þannig frá hinu háa Alþingi að veiðileyfið, rétturinn, snúist um að nýta flök, dálka, innyfli og hausa í einni púllíu þá verða leikreglurnar þannig. Og það á ekki að ákveða frá degi til dags, alls ekki. Við eigum að gera þetta nákvæmlega eins og við gerum við veiðar t.d. á hreindýrum. Við mundum aldrei sætta okkur við að helmingurinn af dýrinu lægi uppi á heiði vegna þess að við sjáum það. Við sættum okkur við það varðandi sjávaraflann vegna þess að við sjáum það ekki. Það botnfellur. Það er ekkert vafamál, ef við erum að tala um þessar tölur sem ég hef ekki staðfestar frekar, en þetta eru tölur sem eru settar fram af þessu fyrirtæki, 3,2 milljarðar fyrir hausana, þá erum við að tala um gríðarleg verðmæti. Ég tala ekki um ef í framhaldinu er líka um að ræða alls konar líftækni varðandi innyfli og þess háttar.

Þetta yrði lagasetning sem ráðherrann síðan rekur í sínu ráðuneyti á grunni laganna frá Alþingi og ég er sannfærður um að þessi breyting, þessi pólitíska grundvallarbreyting með nýrri pólitískri sýn á hvernig á að setja þennan ramma muni leiða af sér og gefa gríðarlega mörg tækifæri bara á næstu áratugum varðandi frekari úrvinnslu á hinum ýmsu tegundum sem sóttar eru í sjóinn. Við sem höfum farið til útlanda og tileinkað okkur að borða mat annarra þjóða vitum t.d. að í Rússlandi er allur innmatur úr fiski ,,delicatess``, sultaður á ýmsan hátt, kútmagar, sundmagar og svil, bara nefnið þið það. Þetta eru allt gríðarleg verðmæti. Við höfum margoft talað um það hér á hinu háa Alþingi, og það gildir um öll svið þjóðlífsins, að við eigum að fara úr magni í gæði og þetta er liður í því.

En pólitíski tónninn er þessi: Ráðherrann á ekki að stjórna þessum málum svona frá degi til dags og á það mun ég leggja áherslu í vinnu hv. sjútvn.