Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 17:01:52 (1825)

2001-11-20 17:01:52# 127. lþ. 32.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[17:01]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það þingmál sem við ræðum nú er auðvitað hluti af tilraunum manna til að nálgast stjórn fiskveiða með lögregluaðgerðum. Menn eru mjög uppteknir af að með því að refsa mönnum fyrir að ganga illa um auðlindina muni takast að koma á betri skikkan en hefur verið.

Það kann að vera og vonandi verður af þessu einhver árangur en ég óttast að það muni aldrei takast að stjórna fiskveiðum við Ísland með því móti og ég tel að við séum ekki með skynsamlegar reglur ef við þurfum að stjórna á þennan hátt.

Ég held að ýmsa hafi grunað þegar ráð var fyrir því gert í þeim lögum sem hér er verið að tala um, að henda mætti skemmdum fiski í sjóinn, að það mundi verða til þess að býsna erfitt yrði að koma einhverjum sönnunum við gagnvart þeim sem hentu fiski í sjóinn. En ég veit eiginlega ekki hvort hægt er að segja að nokkurn tíma hafi á það reynt því að svo langt hafa menn held ég aldrei komist í að reyna að taka á mönnum sem hafa gengið illa um auðlindina.

Ég bar fram fsp. til hæstv. sjútvrh. í fyrra um hversu margir hefðu verið ákærðir og dæmdir á grundvelli þeirra laga sem eru í gildi um þessa hluti. Svörin voru á þá leið að einhverjir hefðu jú verið kærðir, ég man ekki hvort það voru 19 eða 20, en enginn hafði verið dæmdur.

Þetta er náttúrlega það sem við stöndum frammi fyrir, og ég velti því dálítið fyrir mér að þótt þessi regla verði tekin upp --- að koma verði með fiskinn að landi og ráðherra fylgi því þá eftir með reglugerð --- hvernig takast muni að sanna að einhverjir hafi hent fiski í sjóinn, jafnvel þó að vísbendingar séu um það í aflasamsetningu viðkomandi skips og að Fiskistofa sendi sína galvösku eftirlitsmenn um borð og þeir fylgist með í nokkra daga. Menn þurfa ekki að halda að brottkast verði stundað undir vökulum augum þeirra. Síðan koma menn í land aftur og er þá einhver sönnun fyrir því að menn hafi kastað fiski í sjóinn annað en aflasamsetningarskýrslur? Verður hægt að dæma á grundvelli þeirra? Ég stórefast um það. Og ég verð hreinlega að viðurkenna að ég efast líka svolítið um að það muni standast að láta viðkomandi útgerðir borga fyrir þessa eftirlitsmenn um borð, þó að aflasamsetningin hafi verið grunsamleg, einfaldlega vegna þess að það mun ekki standast fyrir dómi að refsa mönnum ef engin sönnunargögn eru fyrir hendi. Því miður er a.m.k. ástæða til að óttast að þetta verði erfitt í framkvæmd.

Það þarf æðimarga eftirlitsmenn um borð í íslensk fiskiskip ef takast á að að venja menn af því að kasta fiski í sjóinn með því að þreyta þá með mannskap sem væri sendur út með þeim.

Stjórnvöld bera hér býsna mikla sök því að umgengnin um fiskimiðin er auðvitað að miklum hluta til komin vegna þeirra reglna sem eru í gildi og hafa verið í gildi. Ég verð að segja alveg eins og er að ég hef orðið fyrir mörgum og miklum vonbrigðum vegna þess hvernig hv. Alþingi og stjórnvöld hafa gengið fram hvað varðar þessi mál. Ég var á þingi 1991 þegar hæstv. þáv. sjútvrh. lagði fram frv. um fullvinnslu botnsfisksafla um borð í veiðiskipum þar sem lagt var til að það yrði að lögum að menn kæmu með allan afla að landi af fullvinnsluskipunum. Og það frv. Þorsteins Pálssonar varð að lögum.

Þá risu þeir upp sem ráða mestu í þjóðfélaginu, þ.e. forusta LÍÚ, og sögðu mönnum sínum það að þeir skyldu ekki aldeilis fara að eyða peningum í að fara eftir þessum lögum, þeim yrði sko kastað út í horn --- sem reyndist rétt. Alþingi lúffaði fyrir LÍÚ og afnam þau lög áður en þau komu til framkvæmda því að gert hafði verið ráð fyrir að menn fengju aðlögun að þeim fram að árinu 1996.

Hvað sjáum við núna? Við sjáum að það sem þau lög áttu að tryggja, þ.e. að menn kæmu í land með hausana og hryggina og þann hluta fiskjarins sem hefur verið eða var fleygt í sjóinn þá, er í dag gífurlegt aflaverðmæti. Það er alveg örugglega staðreynd, a.m.k. er það staðreynd í mínum huga, að ef lögin hefðu verið látin ganga fram hefðum við verið mun fyrr á ferðinni að nýta allan þann afla. Þá væru menn kannski ekki að flytja inn hausa frá Skotlandi til Íslands vegna þess að þá vantar á markaðinn, því að þá væru öll fullvinnsluskipin með aðstöðu í dag til þess að koma með þá hluta fiskjarins að landi. En Alþingi gaf eftir í málinu vegna mótmæla LÍÚ-forustunnar og þess vegna sitjum við nú í súpunni.

Ef menn hefðu staðið í fæturna og verið staðfastir hér á hv. Alþingi í sambandi við þetta mál hefði það haft almenn áhrif á umgengni um fiskimiðin. Þá hefðu menn auðvitað aldrei sett þau lög sem verið er að breyta hérna núna, um að menn mættu henda í sjóinn selbitnum afla eða, eins og hér stendur, verðlausum. Menn hefðu þá þurft að halda sig við það að koma þeim afla öllum að landi og það hefði að mínu viti mikið siðferðilegt gildi vegna umgengninnar um auðlindina. Ég hvet til þess að menn fari sem snarlegast inn á þá braut að sjá til þess, og ég hvet hæstv. sjútvrh. til að ganga fram í því, að það verði ófrávíkjanleg stefna að allur afli komi að landi og það megi bókstaflega ekki verja það með neinu móti að afla sé fleygt í sjóinn. Þá væri eingöngu um að ræða einhvers konar slys sem verða til sjós, og auðvitað er ekki hægt að útiloka að veiðarfæraóhöpp og annað slíkt verði til þess að einhver afli náist ekki upp sem búið er að drepa. En að öðru leyti geri menn ráð fyrir og vinni út frá því að allur afli komi að landi.

Það er ekki sú stefna sem Alþingi og stjórnvöld hafa rekið fram að þessu, alls ekki. Hlaðið hefur verið undir þá sem hafa gengið illa um auðlindina. Ég kalla það að ganga illa um auðlindina að koma ekki með nema helminginn af þeim fiski að landi sem kemur inn fyrir borðstokkinn eins og fullvinnsluskipin hafa gert í gegnum tíðina. Sá hluti aflans sem fer fyrir borð hjá þeim, eða gerði þegar þessi mál voru hér til umræðu 1991 og 1992, var talinn vera um helmingurinn af þeim afla sem kom inn fyrir borðstokkinn. Þá er ekki verið að tala um neitt refsivert athæfi, alls ekki. Mönnum var sem sagt gefin heimild til að ganga svona um.

Kannski er eðlilegt að einhverjir líti þannig á að það sem höfðingjarnir hafist að, hinir meini sér leyfist það, að henda líka einhverju í sjóinn sem fáist ekki mikið verðmæti fyrir. Ég held sem sagt að menn hafi verið að ala upp í sjómönnum að ganga ekki vel um með því að hafa slíkar reglur hér á Alþingi og með því að gefa eftir fyrir LÍÚ í þeim málum sem ég er að tala um.

Menn mega ekki taka það sem ég er að segja sem afsökun fyrir því að menn fleygi afla í sjóinn. Það er af og frá að ég sé að mæla með slíku. Ég held hins vegar að hv. alþingismenn eigi að muna það vel og vandlega þegar þeir eru að halda ræður hér í hv. Alþingi að reglurnar eru héðan. Samkvæmt þeim reglum sem menn hafa búið við hafa sumir staðið frammi fyrir því að þeir hafa engra annarra kosta völ átt en að brjóta reglur. Þeir hafa verið komnir út á sjó og þeir hafa fengið fisk inn fyrir borðstokkinn sem þeir áttu ekki von á og áttu ekki kvóta fyrir. Þó að þeir hafi haft samband við kvótabanka hefur ekki verið hægt að fá hann. Og hvað áttu þessir menn að gera þá? Menn vita hvaða leiðir eru þá til staðar --- engin af þeim lögleg --- sem hægt er að velja á milli.

Það þýðir ekki fyrir menn á hv. Alþingi að tala eins og þeir beri enga sök í þessum málum, beri ekki ábyrgð á því sem um er að vera.

Síðan hafa menn gengið lengra og lengra í að kvótasetja tegundir og setja fleiri og fleiri í þennan vanda. Mér er nær að halda að það hefði haft veruleg áhrif til þess að auka brottkast, og mun gera það að öllum líkindum nema sveigjanleikaákvæðin sem verið er að tala um --- og ég ætla svo sem ekki að mæla gegn. Ég verð að gefa hæstv. ráðherra nokkur prik fyrir viðleitni. Mér finnst alveg ástæða til þess. Hann hefur verið að leggja fram ýmsar tillögur sem eru jákvæðar og mér finnst hann hafa reynt að hugsa á slíkum nótum. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að það sem hann hefur verið að leggja til gangi alls ekki nógu langt og ég er einnig á þeirri skoðun að við séum að lenda úti í dálitlu feni með mjög flóknar aðferðir sem verði í gangi. Það þarf bókstaflega að setja útgerðarmenn á skólabekk til að læra á hvaða möguleika þeir hafi til að gera hlutina, færa milli tegunda, koma með 5%, flokka hluta aflans sem á að landa utan kvóta, hluta aflans sem á að fara í gúanó af því að hann er selbitinn o.s.frv. Það er ýmislegt sem verið er að tala um að gera.

Ég velti því svolítið fyrir mér hvort ekki væri einhver möguleiki á því að einfalda þessar leiðir. Það er alveg rétt sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði áðan að ákvæðið um að landa megi þeim afla utan kvóta sem er selbitinn og skemmdur er svolítið samkynja því ákvæði sem er í smábátafrv. um að menn fái að landa utan kvóta afla sem þeir kjósa svo, allt að 5%, og spurning hvort hægt sé að sameina þessa hluti þannig að kerfið verði ekki eins flókið og það stefnir í að verða.

[17:15]

Ýmsir sjómenn hafa verið mjög lengi að læra gildandi reglur. Ég þekki það sjálfur vegna þess að ég hef talað við menn sem voru mörg ár með þá afstöðu að þeir keyptu aldrei kvóta. Þeir tóku þá ákvörðun þegar kvótakerfið var sett á og þeir fengu sínar úthlutanir að þeir ætluðu hvorki að kaupa né selja kvóta nokkurn tímann. Halda menn að þessir menn hafi aldrei þurft á því að halda að kaupa kvóta? Jú, þeir þurftu á því að halda. En þeir gerðu það aldrei. Þeir völdu einhverjar aðrar leiðir frekar en að kaupa kvóta fyrir þeim tegundum sem þá vantaði og voru aukategundir í þeirra afla.

Það er þess vegna full ástæða til að fara mjög vandlega yfir það með forustumönnum útgerðarmanna og gera á því athugun hvort sjómönnum og útgerðarmönnum séu kunnugar allar gildandi reglur, að maður tali ekki um þegar nýjar reglur eru settar. Þá þarf að koma þeim almennilega til skila og kenna mönnum að fara eftir þeim, jafnvel veita þeim ráðgjöf vegna þess að það er ekki alltaf auðvelt val hjá sjómönnum og útgerðarmönnum. Oft og tíðum er um að ræða mjög háar fjárhæðir fyrir lífsafkomu þeirra, og ekki vandalaust að taka ákvörðun um hvort kaupa skuli kvóta af þessari tegundinni eða hinni eða hvernig beita skipinu.

Örlög okkar í þessu kvótakerfi virðast ætla að verða þau að gera það sífellt flóknara. Ég held að full ástæða sé til að gefa því gaum hvort menn eigi ekki að reyna að leita einföldunarleiðanna. Ég tel að þar hafi ráðherranum brugðist bogalistin. Hann hefur kosið þá leið að setja fleiri tegundir í kvóta. Ég tel hins vegar að það hefði átt að ganga í hina áttina, vera með eins fáar tegundir í kvóta og mögulegt er, og láta hann síðan færast sjálfvirkt á milli tegunda, þ.e. að aukategundirnar séu dregnar frá heildarkvótanum. Það er leið sem ég teldi að menn ættu að skoða vandlega, að reyna að hafa kvótategundirnar sem allra fæstar og einfalda þetta. Þá væri hægt að sigla fram hjá ýmsum vandamálum sem eru miklu fleiri --- og hafa orðið fleiri fyrir einstaka útgerðarmann --- við að fá inn í kvóta alls konar tegundir sem þeir eru að fá lítið af.

Hvernig halda menn t.d. að útgerðarmenn bregðist við sem eru ekki að gera út á skötusel og fá hann sem meðafla? Halda menn virkilega að sá skötuselur hafi vit á því að forðast krókana hjá þeim? Nei, auðvitað ekki. Þessi skötuselur kemur bara að landi og fer fram hjá vigt. (GAK: ... eigin poka?) Já, og kemur heim á tröppur hjá einhverjum kannski og hefur aldrei komið við á neinni vigt.

Það eru fleiri tegundir sem þarna er um að ræða. Og það versta fyrir þjóðina er kannski að sumar þessara tegunda fara bara í sjóinn aftur af því að menn nenna ekki að standa í þessu. Þetta er það lítið sem þeir eru að fá og þeir nenna ekki að standa í einhverju þrasi og veseni út af því að útvega sér einhvern kvóta.

Ég held reyndar að sveigjanleikaákvæðin geti komið þarna til en ég tel að þessi undarlega hugsjón kvótamanna, að enginn fiskur við Ísland megi synda þar munaðarlaus, þurfi að hverfa. Og hvernig á fólkið í landinu að skilja að Vestmanneyingar eigi ýsuna sem er að synda við Vestfirði núna? Fólk upplifir þetta svona þegar allt í einu gýs upp meiri veiði á einhverjum slóðum.

Þetta þarf að breytast. Ég held að það væri ráð að skoða það að fækka tegundunum sem allra mest í kvótanum og einfalda þetta eins og mögulegt er. Ég geri ráð fyrir því að menn séu ekki á móti þessari tillögu sem er hér. Ég er a.m.k. fylgjandi því að allur fiskur komi að landi og allur fiskur er verðmæti. Við vitum að það er hægt að gera mikil verðmæti úr fiski sem fer í fiskimjöl í dag. Og kolmunninn sem varla tók að setja í bræðslu fyrir nokkrum árum er orðinn svo verðmætur í dag að menn á kolmunnaveiðum eiga núna sínar bestu vertíðir í þessum flota. Ég held reyndar að verð á fiskimjöli sé almennt mjög gott. Þar fyrir utan tel ég að það eigi bara að vera ófrávíkjanleg regla að allur afli sem kemur um borð í fiskiskip á Íslandsmiðum eigi að fara í land og það eigi ekki að vera nein afsökun fyrir því að koma ekki með hann.