Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 17:27:37 (1829)

2001-11-20 17:27:37# 127. lþ. 32.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[17:27]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er kannski svolítið seint að gera þessa játningu. Ég var ákaflega hrifinn og mér fundust þetta eiginlega vera tímamót vegna þess að við sem höfum verið að leggja til að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu höfum verið mjög uppteknir af því að reyna að gera það þannig að þeir sem væru í útgerð gætu lifað breytinguna af og yrðu ekki settir í mikinn vanda.

En hæstv. ráðherra taldi vera hægt að gera þetta á einni nóttu eða ekki kannski nóttu, einum degi, að breyta þessu þannig að steinbíturinn væri tekinn út úr kvóta. Mér fannst það vera sönnun fyrir því að við þyrftum kannski ekki að vera svona óskaplega áhyggjufullir yfir þessum fyrningartíma eða aðlögunartíma sem við höfum flestir verið að tala um.

Þó að hæstv. ráðherra hafi breytt þessu aftur tel ég að þetta hafi verið ágætis innlegg hjá honum í þá umræðu að hægt sé að breyta þessu og það sé full ástæða til að vera djarfir í að gera breytingarnar. Hann var það í sumar, bæði þegar hann tók steinbítinn út úr kvótanum og setti hann inn aftur.