Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 17:28:59 (1830)

2001-11-20 17:28:59# 127. lþ. 32.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[17:28]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Einu sinni var sagt að allir vildu Lilju kveðið hafa. Nú sýnist mér þetta vera að þróast í þá átt að þeir koma inn einn og einn og greina frá því að þeir vildu gjarnan hafa kveðið þessa Lilju.

Auðvitað getum við sagt að betra sé seint en aldrei. Ég verð samt sem áður að segja að mér fannst, og finnst, í ljósi alls að hv. þm. hefði getað sparað sér hæverskuna í sumar þegar bardaginn stóð um þetta mál því að ég, eins og hv. þm., leit þannig á að þetta væri dálítið bardagi um grundvallaratriði, og það var auðvitað ljóst mál hver tapaði og hver vann í þeirri umræðu.

Ég vil biðja hv. þm. næst þegar hann í hjarta sér er sammála svona góðum málum að hann spari ekki við sig heldur reyni að rífa af sér hæverskuna og komi til liðs í stað þess að sitja hjá og gera bara játningar klukkan hálfsex löngu eftir að þetta er búið.