Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 17:32:10 (1832)

2001-11-20 17:32:10# 127. lþ. 32.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[17:32]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Bara út af þessum síðustu orðum, að ef það er ábyrgðarleysi að taka svona tegundir út úr kvóta að mati einhvers þá vil ég segja við hv. þm. að hann hefur skort ábyrgðarleysi núna í sumar í þessum efnum.

Að öðru leyti vil ég bara segja rétt í lok þessarar umræðu --- ég ætlaði út af fyrir sig ekki að hafa mörg orð um hana --- að mér hefur sýnst að í grundvallaratriðum séu viðtökur frv. fremur jákvæðar. Ég hef hlýtt á umræðurnar og mér heyrist að í grundvallaratriðum séu menn jákvæðir að því leytinu að þetta sé viðleitni í þá áttina að tryggja að það sem úr sjónum komi sé einhvern veginn nýtt til verðmætasköpunar. Ég geri mér alveg grein fyrir því að menn hafa mismunandi trú á frv. sem aðferð við það að koma í veg fyrir brottkast. En eins og ég hef lesið út úr þessum umræðum þá hefur mér heyrst að menn séu fremur þeirrar skoðunar að þetta verði til þess að auka verðmætin í sjávarútvegi heldur en hitt og í því ljósi heyrist mér að menn séu fremur á því að þetta sé til bóta að þessu leytinu a.m.k.

Mig langar þó aðeins að tala almennt um þessa hluti í framhaldi af því sem ég hef verið að tjá mig um þessi mál í fjölmiðlum og á opinberum vettvangi þar sem ég hef átt þess kost, ekki síst vegna þess að ég hlýddi með mikilli athygli á hv. 4. þm. Vestf. sem hefur mjög yfirgripsmikla þekkingu á þætti veiðarfæranna í því að stjórna veiðunum og hafa áhrif á brottkastið. Ég er alveg sammála hv. þm. um að við höfum ekki þá þekkingu, því miður, sem dugir til þess að nýta veiðarfærin til þess að koma í veg fyrir hvatann til brottkasts. Við höfum ekki þá þekkingu sem við þurfum til þess að velja ,,þarna niðri`` eins og einn ágætur veiðarfærasérfræðingur orðaði það einu sinni í blaðaviðtali. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að við þurfum að gera í því stórátak. Það er kostulegt til þess að vita, í ljósi þess að við erum að fjárfesta fyrir milljarða og stundum milljarðatugi á einhverjum tímabilum í sjávarútvegi okkar, að við skulum ekki hafa lagt meira á okkur við að afla þessarar þekkingar.

Hins vegar er ljóst að hægt er að gera mjög margt í þessum efnum. Sjálfur hef ég vakið athygli á því hvað hægt er að gera varðandi dragnótina. Það skiptir miklu máli vegna þess að menn hafa bent á að í skoðanakönnuninni sem oft hefur verið rætt um varðandi brottkastið, kom í ljóst að brottkast er talsvert mikið hlutfallslega, ef marka má þær upplýsingar, vegna þessa veiðarfæris. Með því er ekkert verið að fella neinn sérstakan dóm yfir einum eða neinum, hvorki þeim sem veiða né öðrum, heldur er einfaldlega verið að benda á þessa niðurstöðu könnunarinnar. Hvort sem það er svo eða ekki þá er ljóst að ef hægt er að beita veiðarfærastýringu til þess að draga úr brottkasti þá eigum við að reyna það eins og við getum.

Ég vil líka í þessu sambandi vekja athygli á því að núna er verið að vinna að mjög merkilegri tilraun á vegum fyrirtækisins Dímons til að tryggja það að með línuveiðum geti menn valið meira fiskinn sem þeir sækjast eftir. Við þekkjum það sjálf, ef við skoðum söguna síðustu árin, að með því að velja beitu er hægt að hafa mikil áhrif á hvaða tegundir menn veiða. Það þekkjum við frá gamalli tíð. En ég held að menn hafi verið að ná meiri árangri í þessum efnum á síðustu árum, t.d. með innflutningi á þessu danska síli, sem bendir til þess að hægt sé í ýmsum tilvikum að nota veiðarfærin sjálf til þess að koma í veg fyrir tilefni til brottkasts.

Hins vegar er alveg ljóst, eins og hv. 4. þm. Vestf. benti alveg réttilega á, að við vitum einfaldlega of lítið. Okkur er ljóst að hægt er að ná ákveðnum árangri en það er líka ljóst að annað höfum við ekki á okkar valdi og í ýmsum tilvikum getur það verið þannig að hnjaskið sem fiskurinn verður fyrir leiði einfaldlega til tjóns sem við getum ekkert bætt.

Við skulum líka gera okkur grein fyrir því að gríðarleg þróun er í veiðiskapnum sjálfum. Eins og hv. 4. þm. Norðurl. v. benti á, kom fram á ráðstefnu núna um helgina að framleiðniaukningin, ef við getum það kallað svo, geti numið í þessum efnum 4--5% á ári og það er gríðarlega mikið ef við skoðum t.d. 10--20 ára tímabil. Mér finnst þetta sjálfum ekkert ólíklegt. Ef maður horfir aðeins til baka til þeirrar miklu þróunar sem hefur orðið í þessum efnum, stækkunar skipa, bætts tækjabúnaðar og bættra veiðarfæra þá sjáum við að þarna er um gríðarlega mikla þróun að ræða.

Í síðasta blaði Fiskifrétta er athyglisverð stutt grein eftir fyrrverandi skipstjóra sem ég þekki nú engin deili á. Hann spyr einfaldlega þessarar spurningar:

Tökum dæmi: Hvað fengist í botnvörpu á 700 tonna síðutogara með 105 feta höfuðlínu eða í hampnet á þorsk- og ýsuveiðum? Og hann svarar: Það fengist lítið sem ekkert í dag.

Spurningin er: Er þetta vegna þess að lífríkið hefur verið að bregðast við eða um hvað er hér að ræða? Ég held að þessi spurning skipstjórans fyrrverandi bendi okkur fyrst og fremst á þá gríðarlegu þróun sem orðið hefur í veiðarfærunum. Út úr því sem menn voru að gera með einhverjum árangri fyrir tíu árum, 20 árum eða 30 árum, mundu menn einfaldlega ekkert fá núna.

Menn hafa töluvert spurt í þessari umræðu hvort rétt sé að hæstv. ráðherra fái heimild í reglugerð til þess að gefa leyfi til þess að henda fyrir borð verðlausum fiski og innyflum, hausum o.s.frv. Mér hefur heyrst að mjög margir sem hafa tjáð sig um þetta mál hafi verið þeirrar skoðunar að þessi heimild hæstv. ráðherra ætti ekki að vera til staðar. Ég er ekki jafnviss um þetta einfaldlega vegna þess að við verðum að líta á málið í heild sinni. Tökum sem dæmi lítinn bát, vertíðarbát sem slægir um borð, smábát sem skilar slægðum afla að landi. Á að setja honum það skilyrði að hann komi með slógið o.s.frv. að landi? Ég er ekki viss um það. Ég held því að ekki sé óeðlilegt að til staðar sé einhver heimild fyrir hæstv. ráðherra, hvort sem það er þessi heimild algjörlega eða önnur, sem gefur einhver færi í þessum efnum.

Að lokum vil ég segja að ég fagna mjög ákvæði frv. um að hæstv. ráðherra geti ákveðið að sleppa skuli lifandi afla sem er undir tiltekinni lengd eða þyngd eða sem fæst í ákveðin veiðarfæri. Ef ég veit rétt þá hafa menn m.a. stuðst við það að þetta sé ekki heimilt þegar þeir hafa talað um að nauðsynlegt sé að hirða menn sem eru að, eins og ég hef orðað það, berja kóðin af krókunum. Ef þessi heimild hér nægir til þess að menn hætti svoleiðis tilefnislausum bófahasar þá er það að mínu mati gott skref og þarft.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að fara almennum orðum um frv. og árétta að það er auðvitað engin heildarlausn á þeim mikla vanda sem brottkastsumræðan er. En það er hins vegar athyglisvert innlegg í umræðuna um það hvernig eigi að auka verðmætasköpunina.