Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 17:39:31 (1833)

2001-11-20 17:39:31# 127. lþ. 32.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[17:39]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir að mestu leyti ágæta og málefnalega umræðu, mér liggur við að segja tímamótaumræðu. Við höfum oft deilt á hv. Alþingi, ég og hv. þm. Jóhann Ársælsson, en þetta er í fyrsta skipti sem hefur komið fram að hann hafi verið ákaflega hrifinn af einhverju sem ég hef gert. Og ég hugsa að nú sé í fyrsta skipti sem hann ætlar að gefa mér prik fyrir eitthvað, þó ekki sé nema fyrir viðleitni. Það er allt saman út af fyrir sig ánægjulegt.

Þær umræður sem hér fóru fram um að betra væri að hafa fáar tegundir í kvóta en fleiri eru út af fyrir sig athyglisverðar. Ég verð að viðurkenna að ég held að hægt sé að ná þeim markmiðum sem við erum að reyna að ná í fiskveiðistjórninni á fleiri en einn hátt, þ.e. með fleiri en einni útfærslu af kvótakerfi eða einhvers konar samsvarandi takmörkunum á afla. Mér sýnist þó að sú útfærsla sem hér hefur verið nefnd strandi á títtnefndum hæstaréttardómi um 5. gr. þar sem eftir þann dóm er óheimilt er að takmarka aðgang að auðlindinni með veiðileyfum, því það þyrfti að gera ef takmarka ætti með fáum tegundum í kvóta og síðan með meðafla því þá yrði það að vera þannig að þeir sem ekki hafa kvóta í þessum kvótabundnu tegundum mættu ekki sækja sjó því að þeir ættu þá ekki að geta sótt bara í meðaflategundirnar. Það kemur nákvæmlega inn á það sem hv. þm. Sigríður Ingvardóttir minntist á hér fyrr í dag, að það er ekki bara hægt að leigja sér kvóta í þorski og halda síðan til veiða því venjulegast veiða menn nú yfirleitt eitthvað annað líka þó ekki sé það alltaf mjög mikið. Þessar vangaveltur sýnast mér því stranda á þessu ákvæði.

Hins vegar er ánægjulegt að menn viðurkenni þá viðleitni sem felst í því að skapa þeim sem verða fyrir því að veiða eitthvað annað en þeir höfðu ætlað sér eða áttu von á, einhverja útgönguleið, t.d. með breytingunni á tegundartilfærslunni og tillögunni um 5% kvóta til Hafrannsóknastofnunarinnar, að viðbættu auðvitað því sem felst í jöfnum skiptum og á framsali.

Mér sýnist að verði þessi 5% hafróregla að lögum og það síðan hnýtt saman við tegundartilfærsluna, þá geti það verið 10--15% af heildarþorskígildum sem bátur eða skip fær úthlutað sem hægt er að hafa í öðrum tegundum en þeirri megintegund sem verið er að veiða. Þetta fer auðvitað eftir tegundum því eins og menn vita er tegundartilfærslan mæld í þorskígildum, en hafrótillagan er hreinlega bara í magni.

Samanber umræður sem farið hafa fram t.d. um aukinn ýsu- og steinbítsafla við Grímsey þá gæti þetta verið á bilinu 10--15% af þorskkvótanum sem hægt væri að færa yfir í ýsu og/eða steinbít. Það fer eftir því hvernig menn mundu haga slíkri samsetningu. Þetta er nú svona grófur útreikningur.

Þetta er einmitt það sem verið er að reyna að gera. Það er verið að reyna að skapa svigrúm og ég held að það ætti örugglega að nýtast varðandi þessar meintu skötuselsveiðar á Faxaflóasvæðinu sem virðast hafa komið mönnum í opna skjöldu. En það skrýtna við það er kannski að ekki virðist ganga neitt sérstaklega vel að veiða hann síðan í net fyrir Suðurlandi þar sem mesta veiðiaukningin hefur verið á undanförnum árum. Það er nú oft svo að náttúran og umhverfið kemur okkur á óvart og þó að við séum öll af vilja gerð til þess að mæta þeim breytingum, getur það verið erfitt.

Hafrannsóknastofnunin er að reyna að mæta þessu í útreikningum sínum, þ.e. að taka tillit til vistkerfisbreytinga í sínum módelum og er vonandi að það takist sem best.

En það er kannski ekkert skrýtið þótt svona verði flókið vegna þess að verið er að reyna að taka tillit til aðstæðna sem við höfum ekki séð og útbúa reglur sem hægt er að nota við kringumstæður sem við vitum ekki hverjar muni verða.

[17:45]

Hv. þm. Jóhann Ársælsson hafði áhyggjur af því að þetta væri orðið of flókið fyrir útgerðarmennina. Ég get nú ekki tekið undir það. Ég held að það hljóti alltaf að hafa verið flókið að gera út. Jafnvel þó menn þurfi að velta því fyrir sér hvort þeir eigi að nota þennan eða hinn möguleikann, að möguleikarnir séu tveir, þrír eða fjórir, þá held ég að það sé ekki neitt sem íslenskir útgerðarmenn muni láta stranda á hjá sér.

Varðandi kynningar á þessum möguleikum þá virðist alla vega þeim útgerðarmönnum og sjómönnum sem ræða við mig vel kunnugt um það sem búið er að ákveða, það sem verið er að vinna með hér og ýmsar aðrar hugmyndir sem upp hafa komið í umræðunni. Samtök sinna einnig því starfi ágætlega að hafa um þetta umræðu. Alla vega hefur nú tvö ár í röð verið sérstök umræða um brottkast á þingi LÍÚ, þar sem starfsmenn ráðuneytisins hafa komið að umræðunni við það að útskýra þau lög og reglur sem í gildi eru og það sem verið hefur í bígerð.

Það hefur reyndar líka komið talsvert inn í umræðuna hvernig hægt yrði að koma með allan afla að landi og þá einnig þann afla sem segja má að búið sé að hluta í sundur úti á sjó, þann afla sem hefur farið í vinnslu og þá hluta sem menn vilja henda. Þetta þykir mér ánægjuleg umræða og þetta á auðvitað að vera markmið okkar. Ég held hins vegar að það sé rétt að hafa þetta áfram eins og það hefur verið, að sjútvrh. ákveði það hverju sinni hverju megi henda og hvað sé skylt að koma með að landi. Markaðir fyrir nýjar aukaafurðir, ef ég má nota það orð, verða ekki til í einu vetfangi. Markaðurinn tekur ekki í einu vetfangi við öllu því sem við gætum hugsanlega komið með að landi. Við þurfum að láta þessa hluti þróast og við getum hæglega eyðilagt svona markaði ef framboðið er of mikið. Verði þeir hins vegar til, bæði stórir og öryggir, þá munu menn örugglega sjá vinnslunni fyrir hráefni á þá markaði og ef með þarf þá er sjálfsagt að breyta reglugerðum til þess að svo geti orðið.

Ég kvarta ekkert undan því að menn sýni mér ósanngirni, herra forseti, þótt mér sé falið að taka þessar ákvarðanir. Varðandi áhyggjur manna af því að óbærilegur þrýstingur sé settur á sjútvrh. þá er það reynsla mín af því að vera í embætti sjútvrh. að hann sé alltaf undir þrýstingi. Þetta út af fyrir sig veldur því ekki neinum vandkvæðum.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson ræddi svolítið um skilgreiningar á því hvað væri skemmdur afli, ræddi um selbitinn afla og þar fram eftir götunum. Þetta er út af fyrir sig ekkert óeðlileg umræða þar sem verið er að gera breytingar á þessum þætti. Ég held reyndar að selbitinn afli eigi ekki að fara neitt nema í bræðslu og hið sama gildir um annan skemmdan afla. En selbitinn afli er auðvitað þess eðlis að það er hætta á smiti sem borist getur úr selum og þess vegna er rétt að halda þeim afla frá og hann fari beint í bræðslu.

Ég held að skilgreiningin á skemmdum afla breytist ekkert við þessa breytingu. Ef menn hafa verið með einhverja skilgreiningu út á sjó á því hvað teldist skemmt og hverju þeir mættu henda þá hljóta þeir að yfirfæra þá skilgreiningu yfir á það hvað er skemmt og þeir mega halda til hliðar svo það teljist ekki til kvóta. Reynist hafa verið einhver brotalöm í því hvernig þetta var skilgreint þá getum við tekið á því síðar en áður en slíkt sannast held ég að við ættum að ganga út frá því að sömu skilgreiningarnar muni gilda áfram.

Hér fóru fram ágætar umræður um veiðarfærin sem er kannski of langt mál að fara út í og býsna athyglisverð umræða um lærða þorska eða lærða síld. Mér sýnist nú reyndar að reynslan hafi verið sú að maðurinn hafi verið fljótari að læra en þessar fisktegundir og hannað ný veiðarfæri jafnóðum og fiskarnir hafa hugsanlega lært að forðast veiðarfærin.

Það sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði um að öll kvótakerfi hafi innbyggðan hvata til brottkasts er að vissu leyti rétt, þ.e. að því leyti að öll þau kerfi sem takmarka þann afla sem við getum komið með að landi hafa þann hvata innifalinn. Jafnvel geta verið aðstæður sem takmarka aflann, þar sem ekki er einu sinni um neitt kerfi að ræða, reyndar viðurkenndi hv. þm. það þegar hann var að ræða hér um Smuguna.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson nefndi lögregluaðgerðir og telur þær ekki til þess fallnar að leysa vandamálin og vísaði síðan í fyrirspurn sína frá því á síðasta þingi um hversu erfitt það væri að sanna sök í brottkasti. Það má auðvitað til sanns vegar færa og skyldi þó aldrei vera að það hafi að einhverju leyti haft áhrif á þá ákvörðun að flytja þetta frv., þær upplýsingar sem komu fram í svari við fyrirspurninni sem hann lagði fram hér á síðasta þingi.

Ég held ekki að lögregluaðgerðir séu einhver allsherjarlausn á þessu vandamáli. Ég held auðvitað að við þurfum fyrst og fremst að setja skynsamlegar reglur um það kerfi sem við höfum, sem eru í samræmi við þau markmið sem við erum að reyna að ná með kerfinu. Síðan þurfum við að veita eðlilegt aðhald. Ég held að það sé í öllum tilfellum nauðsynlegt, að veita eðlilegt aðhald. En auðvitað virkar það ekki nema öllum sé það ljóst að ef um meint afbrot er að ræða þá verði þau rannsökuð gaumgæfilega. Sannist að um brot hafi verið að ræða þá verða menn að sæta viðurlögum alveg eins, hvað þessi lög varðar, og með önnur lög sem sett eru á Alþingi. Það getur ekkert annað gilt um þessi lög en önnur lög sem við setjum hér. Ég trúi því ekki að nokkrir hv. þm. telji að svo eigi að vera.

Síðan barst aðeins í tal fréttaflutningur af brottkasti að undanförnu, sérstaklega fréttaflutningur ríkissjónvarpsins. Ég held að það þurfi enginn að velkjast í vafa um að að hluta til er þessi fréttaflutningur skipuleg aðför að kvótakerfinu. Við höfum nú einfaldlega orð skipstjórans fyrir því að þetta hafi verið sviðsett í títtnefndum bát. Jafnframt höfum við orð fréttamannsins fyrir því að hann telji fiskveiðistjórnarkerfið óalandi og óferjandi og markmið hans, með því sem hann sé að gera, sé að breyta kerfinu. Hann kveðst jafnframt ætla að koma þessum upplýsingum, ekki bara á framfæri við innlenda fjölmiðla og þjóðina heldur út um víða veröld til að skaða íslenska fiskveiðistjórnarkerfið og það sem íslensk stjórnvöld hafi verið að gera í þessum efnum. Þetta eru þeirra eigin orð. Ég er sannfærður um að viðkomandi fréttamaður mun ekki bera þau til baka, svo oft hefur hann sagt þau í fjölmiðlum og viðtölum. Það getur ekki verið að hann vilji einu sinni leyna þessum tilgangi sínum.

Þetta skiptir hins vegar engu máli varðandi brottkastsumræðuna. Eins og fram hefur komið þá vitum við af þessu brottkasti og það kemur okkur ekkert á óvart. Við höfum verið að bregðast við því á undanförnum missirum. Þó að sumum hv. þm. finnist ekki nógu langt gengið þá, eins og fram kom, fær hæstv. sjútvrh. prik fyrir viðleitni. Við skulum vona að við þurfum ekki að ganga lengra. Við eigum ekki að ganga lengra heldur en við þurfum. Við eigum að fara varlega í að breyta þessu kerfi. Við þurfum að fara varlega, herra forseti, þegar við nýtum auðlindina og ég vona að þær aðgerðir sem við höfum lagt út í og erum að vinna að og munum halda áfram að vinna að, dugi til að leysa þennan vanda.