Verndaráætlun fyrir Breiðafjörð

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 13:24:01 (1853)

2001-11-21 13:24:01# 127. lþ. 33.2 fundur 62. mál: #A verndaráætlun fyrir Breiðafjörð# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[13:24]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Nú eru 10% landsins vernduð með einhvers konar sérlögum, þ.e. friðuð svæði, þjóðgarðar eða svæði sem njóta sérverndar eins og Breiðafjörðurinn og mig langar að skjóta því hér að að þegar Vatnajökulsþjóðgarður verður að veruleika verða 20% landsins komin undir slíka verndun.

Ég reyndi að athuga það í dag hvenær við staðfestum þessa verndaráætlun í ráðuneytinu. Það var í byrjun október samkvæmt upplýsingum mínum. Ráðherra er nú að staðfesta ansi mikið í ráðuneytinu þannig að maður er ekki með allar dagsetningar á hreinu. En það er nýlega búið að staðfesta þessa verndaráætlun og alveg ljóst að það er vilji til þess að fara af stað með hana. Ég fagna því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson vill leggja sitt lóð á vogarskálarnar hér til að svo megi verða. Það kom einmitt fram í máli mínu að 8 millj. sparast með því að leggja niður Náttúruverndarráð. Ég tel að það hafi verið algjör eyðsla á skattfé borganna upp á síðkastið að halda því ráði starfandi vegna breyttra laga sem hér hefur verið rætt um ítrekað í þinginu, þ.e. nýrra umhverfismatslaga, nýrra náttúruverndarlaga. Þar sem tvær frekar stórar ríkisstofnanir takast á við náttúruvernd þá tel ég brýnt að leggja niður Náttúruverndarráð. Hugmynd mín er að hluti af því fé fari til þessarar nefndar svo að hún geti hafið sitt starf, en meginhlutinn af fénu mun fara til frjálsra félagasamtaka af því að ég tel að þau hafi miklu hlutverki að gegna. (ÖS: Eru það náttúruverndarsamtök?) Ég fagna því að fulltrúi Samfylkingarinnar hér muni liðka fyrir þessari hugmynd minni að færa fé á milli þannig að það verði nýtt betur fyrir náttúruverndina í landinu.