Skógræktarmál og Bernarsamningurinn

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 13:26:11 (1854)

2001-11-21 13:26:11# 127. lþ. 33.3 fundur 109. mál: #A skógræktarmál og Bernarsamningurinn# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[13:26]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Hæstv. forseti. Ísland er aðili að fjölmörgum alþjóðasamningum á sviði umhverfismála. Einn þeirra er samningurinn um verndun villtra plantna og dýra og lífssvæða í Evrópu sem kenndur er við Bern og öðlaðist gildi hér á landi árið 1993.

Markmið samningsins er að stuðla að verndun evrópskra tegunda villtra plantna og dýra og lífssvæða þeirra, einkum þeirra tegunda sem fjölþjóðlega samvinnu þarf til þess að vernda.

Í 3. gr. Bernarsamningsins skuldbinda samningsaðilar sig m.a. til þess að taka tillit til verndar villtra plantna og dýra við áætlanagerð og stefnumótun. Samkvæmt 4. gr. samningsins skulu aðildarríkin einnig gera viðeigandi og nauðsynlegar, lagalegar og stjórnarfarslegar ráðstafanir til að tryggja verndun lífssvæða plöntu- og dýrategunda og taka tillit til verndunarþarfa þeirra svæða við áætlanagerð og stefnumótun. Þá skal gefa sérstakan gaum að verndun svæða sem mikilvæg eru þeim fartegundum sem tilgreindar eru í viðaukum samningsins.

Herra forseti. Frá því að þessi fyrirspurn var lögð fram, en nokkuð er umliðið, hefur þeirri er hér stendur borist í hendur erindi Alþjóðafuglaverndarsamtakanna, BirdLife International, til fastanefndar Bernarsamningsins í Strassborg. Í erindi BirdLife International sem Fuglaverndarfélag Íslands á aðild að er lýst áhyggjum samtakanna vegna áhrifa landshlutabundinna skógræktarverkefna á kjörlendi nokkurs fjölda fuglategunda hér á landi. Að áliti samtakanna ganga þrenn íslensk lög um Héraðsskóga, Suðurlandsskóga og landshlutabundin skógræktarverkefni gegn nokkurn ákvæðum Bernarsamningsins, m.a. 3. og 4. gr. sem vitnað var til hér að framan.

Nýræktun skóga á 200 hektara svæði eða stærra er tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar samkvæmt 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum á síðasta ári. En í 2. viðauka eru tilteknar framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og meta skal í hverju tilviki hvort þær eigi að vera háðar umhverfismati eða ekki. Mér er ekki kunnugt um að landshlutabundin skógræktarverkefni hafi verið tilkynnt til Skipulagsstofnunar samanber 2. viðaukann en hæstv. umhvrh. getur vafalaust upplýst nánar um það.

Herra forseti. Erindi Alþjóðafuglaverndarsamtakanna til skrifstofu Bernarsamningsins vekur athygli á misræmi milli þeirra alþjóðlegu skuldbindinga sem við höfum tekist á hendur í umhverfismálum og svo lagasetningar þar um hér á landi. Það hlýtur að vera stjórnvöldum áhyggjuefni að virt samtök á borð við þau sem hér eiga í hlut skuli kæra þau til Bernarsamningsins með þeim hætti sem raun ber vitni. Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. umhvrh. hvort erindi BirdLife International hafi verið eða verði tekið til umfjöllunar í fastanefnd samningsins og hver afstaða ráðherrans sé til málsins.