Skógræktarmál og Bernarsamningurinn

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 13:29:10 (1855)

2001-11-21 13:29:10# 127. lþ. 33.3 fundur 109. mál: #A skógræktarmál og Bernarsamningurinn# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[13:29]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Spurt er:

,,Getur ráðherra staðfest að alþjóðlegu fuglaverndarsamtökin BirdLife International hafi kært íslensk stjórnvöld til skrifstofu Bernarsamningsins í Strassborg fyrir að ógna fuglastofnum með stefnu sinni í skógræktarmálum?``

Svarið er að ráðuneytinu hefur borist ósk frá skrifstofu Bernarsamningsins hjá Evrópuráðinu í Strassborg um að stjórnvöld á Íslandi upplýsi um stefnu þeirra í skógræktarmálum og er hún fram komin í framhaldi af erindi Alþjóðafuglaverndarsamtakanna, BirdLife International --- mér skilst að Fuglaverndarfélag Íslands hafi unnið með þeim í þessu --- þar sem því er haldið fram að í stefnu íslenskra stjórnvalda í skógræktarmálum felist brot á ákvæðum Bernarsamningsins. Framangreind ósk barst ráðuneytinu í lok júní sl.

[13:30]

Í öðru lagi er spurt: ,,Ef svo er, í hverju felst kæran, hefur skrifstofa samningsins tekið kæruna til greina og að hvaða ákvæðum samningsins lýtur kæran?``

Svarið er að Alþjóðafuglaverndarsamtökin halda því fram að áætlun stjórnvalda um ræktun skóga á láglendi ógni ákveðnum tegundum fugla og búsvæðum þeirra hér á landi með hliðsjón af alþjóðlegu mikilvægi þeirra og brjóti gegn 2., 3., 4., 6. gr. og 10. lið 1. gr. Bernarsamningsins. Málið er til meðferðar hjá skrifstofu samningsins en ekki hefur verið tekin afstaða til þess þar.

Í þriðja lagi er spurt: ,,Hver er afstaða ráðherra í þessu máli?``

Ráðuneytið hefur fundað um málið með Náttúrufræðistofnun Íslands, sem fer með framkvæmd samningsins fyrir hönd umhvrn. og í framhaldi af því falið stofnuninni að kynna sjónarmið ráðuneytisins á næsta fundi samningsaðila.

Ráðuneytið leitaði einnig álits landbrn. á málinu. Miðað við gögn málsins og þann stutta tíma sem ráðuneytið hefur haft til þess að fjalla um málið hefur ráðuneytið aðeins getað gert skrifstofu Bernarsamningsins stutta eða lauslega grein fyrir viðhorfum sínum en mun fylgja þeim eftir með ítarlegri greinargerð verði þörf á því.

Ráðuneytið telur ólíklegt, og ég endurtek, telur ólíklegt að einhverjar tegundir fugla eða annarra dýra hafi orðið fyrir umtalsverðum áhrifum af völdum skógræktarframkvæmda.

Ráðuneytinu er hins vegar ljóst að taka verður tillit til tegunda fugla og búsvæða þeirra sem kunna að verða fyrir áhrifum af skógrækt eins og af öðrum framkvæmdum í framtíðinni. Í því skyni hefur verið komið á samstarfi milli umhvrn. og landbrn. til þess að hindra að tegundum dýra og plantna verði stofnað í hættu vegna skógræktar. Og þá er jafnframt hugað að varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni.

Rétt er að benda á að samkvæmt lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, er nýræktun skóga á 200 hektara svæði eða stærra og á verndarsvæðum tilkynningarskyld og getur sætt mati á umhverfisáhrifum samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar.

Það er því ljóst að skógrækt á tiltölulega litlu svæði er tilkynningarskyld og getur farið í mat á umhverfisáhrifum, ekki síst sé talið að hún ógni fuglum og dýrum.

Ráðuneytið hefur lýst því yfir við stjórn samningsins að engin ástæða, ég endurtek að engin ástæða sé til þess að hún taki athugasemdir fuglaverndarsamtakanna til greina. Þá áskilur hún sér allan rétt til að gera ítarlegri grein fyrir málinu síðar á fundi samningsins.

Í stuttu máli er það skoðun mín að afar ólíklegt sé að fyrirliggjandi skógræktaráætlanir hafi umtalsverð áhrif á fugla og dýr. Ég tel að með lögunum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, sé tryggt að tekin verði afstaða til hugsanlegra áhrifa á fugla- og dýrastofna og að með því samstarfi sem komið hefur verið á á milli umhvrn. og landbrn., verði komið í veg fyrir að fuglum og öðrum dýrum verði stofnað í hættu vegna skógræktar.