Skógræktarmál og Bernarsamningurinn

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 13:33:00 (1856)

2001-11-21 13:33:00# 127. lþ. 33.3 fundur 109. mál: #A skógræktarmál og Bernarsamningurinn# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[13:33]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Þetta eru nú nokkuð sérstök áhyggjuefni sem hér koma fram. Fyrirhugað er að taka 5% láglendis, þ.e. þess lands sem er undir 400 metrum, til skógræktar á næstu 40 árum. 95% landsins verður sem sagt skóglaust áfram. Þarna er aðallega um að ræða mólendi, graslendi og síðan gróðurlítið land, mela og þess háttar. Það er yfirlýst stefna Skógræktar ríkisins og landshlutabundinna skógræktarverkefna að ræsa ekki fram votlendi til skógræktar.

Auðvitað væri fengur að því að fuglafræðingar tækju sér fyrir hendur að rannsaka áhrif skógræktar á fuglalíf, en það hefur því miður ekki gerst í miklum mæli. Einnig er rétt að halda því til haga að þeir sem stunda skógrækt hafa engin önnur áform en að hafa góð áhrif á náttúruna. Þetta held ég að menn ættu að hafa í huga.

Við erum að tala um 40 ára áætlun. Og komi eitthvað annað í ljós verður auðvitað brugðist við því ef skógrækt hefur einhver skaðleg áhrif á fuglalíf.