Skógræktarmál og Bernarsamningurinn

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 13:34:28 (1857)

2001-11-21 13:34:28# 127. lþ. 33.3 fundur 109. mál: #A skógræktarmál og Bernarsamningurinn# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., DrH
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[13:34]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Talið er að Ísland hafi verið skógi vaxið milli fjalls og fjöru hér áður fyrr, eða það lærðum við í Íslandssögunni. Við höfum tapað þeim skógi í miklum mæli og erum nú að reyna að endurheimta hann. Ég tel að skógræktarverkefnin sem eru vítt og breitt um landið hafi verið eitt af því besta sem hefur gerst í sveitum landsins á síðustu árum. Verið er að breyta eyðisöndum í fallega skógarreiti með auknu og fjölbreyttu dýra-, skordýra- og plöntulífi öllum til yndisauka. Það er alveg ótrúlegt að heyra hér í þessum sal talað um að skógrækt á Íslandi sé að ógna fuglalífi.