Skógræktarmál og Bernarsamningurinn

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 13:41:29 (1863)

2001-11-21 13:41:29# 127. lþ. 33.3 fundur 109. mál: #A skógræktarmál og Bernarsamningurinn# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[13:41]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Það er full ástæða til að bera hana fram. En það er ekki sú ástæða sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich nefndi hérna áðan að hún væri lögð fram vegna þess að menn hefðu svo miklar áhyggjur af því að við værum að fara offari í skógrækt, heldur vegna þess að Alþjóðafuglaverndarsamtökin hafa haft áhyggjur af því að við værum ekki að haga okkur eins og við ættum að gera. Og það kemur Alþingi við þegar menn hafa áhyggjur af því að við stöndum ekki við þá samninga sem við höfum skrifað undir. Þess vegna er fyrirspurnin lögð fram og hún á fullt erindi í sali Alþingis, enda hefur umræðan sýnt það að menn hafa mikinn áhuga á því að fjalla um þessi mál.

Ég tel að staðið sé faglega að þessum landshlutabundnu skógræktarátökum, a.m.k. þar sem ég hef séð til. Og ég tek undir að þar hafi gott fagfólk komið að málum.

En menn mega nú ekki vera svo viðkvæmir að ekki megi nefna þá hluti sem hér eru á ferðinni, þ.e. að aðrir hafi áhyggjur af því að við gerum þetta ekki nógu vel.