Skógræktarmál og Bernarsamningurinn

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 13:42:40 (1864)

2001-11-21 13:42:40# 127. lþ. 33.3 fundur 109. mál: #A skógræktarmál og Bernarsamningurinn# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[13:42]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Herra forseti. Það fór eins og mig grunaði að hv. þm. héldu að þessi fyrirspurn fjallaði um gildi skógræktar sem slíkrar. Þannig er það ekki. Þeir hefðu betur hlustað aðeins betur. Þetta fjallar um hvaða vinnubrög eru notuð og hvort samtök á borð við BirdLife International, sem eru virtustu fuglaverndarsamtök í heimi, ef þau hafa eitthvað við vinnubrögð okkar að athuga, sendi erindi til Bernarsamningsins sem við höfum fullgilt og hvort ekki þurfi um það að fjalla hér á hinu háa Alþingi. Þetta snýst um vinnubrögð, herra forseti, vönduð vinnubrögð við skógrækt, sem er metnaðarfull og mikil hér á landi og því ber að fagna. En þetta snýst um vinnubrögð, herra forseti, en ekki um hvort landið hafi verið skógi vaxið milli fjalls og fjöru við landnám. Þetta snýst um náttúruna eins og hún er í dag, snýst um það að raska ekki jafnvægi hennar eins og hún er í dag. Við erum ekki að planta trjám fyrir þúsund árum, heldur árið 2001, herra forseti.

Ég vil þakka hæstv. umhvrh. skýr svör. Ljóst er að það á eftir að kynna sjónarmið stjórnvalda fyrir fastanefnd Bernarsamningsins og það verður væntanlega gert bráðlega.

En mig langar, vegna þeirra orða sem hæstv. ráðherra lét falla um að henni þætti ólíklegt að áhrifin væru umtalsverð, að spyrja hvort hæstv. ráðherra gæti skýrt það aðeins betur og skýrt hinu háa Alþingi frá því hvaða rannsóknir liggja að baki þeirri niðurstöðu ráðuneytisins.