Skýrsla um menningartengda ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 13:46:43 (1866)

2001-11-21 13:46:43# 127. lþ. 33.4 fundur 205. mál: #A skýrsla um menningartengda ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GÁS
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[13:46]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson):

Herra forseti. Nýverið var birt skýrsla hæstv. samgrh. um menningartengda ferðaþjónustu. Í kjölfarið var gefinn út bæklingur sem innihélt helstu niðurstöður þeirrar nefndar.

Ég fagna sérstaklega því framlagi og þeirri vinnu. Skýrslan er um margt prýðileg. En ég vil hins vegar fremur gera að umtalsefni það sem ekki er að finna í þessari skýrslu. Raunar eru ýmsar ályktanir í skýrslunni efni í lengri umræðu en hér gefst tími til.

Þó eru nokkur atriði sem skera í augun. Í fyrsta lagi, herra forseti, er suðvesturhorn landsins raunar afgreitt í aukasetningum. Látið er í veðri vaka að menningarborgin Reykjavík árið 2000 afgreiði þau mál í heild og þess vegna þurfi ekki að fjalla svo mikið um þau í skýrslunni.

Ég leit þannig á að þetta átak um menningartengda ferðaþjónustu, jafnágætt og það nú er, ætti ekki síst að skila sér í fjölgun ferðamanna en ekki hinu að hér væri um byggðatengda áætlun að ræða, eins og maður finnur fljótlega eftir að lestur skýrslunnar hefst. Þar er farið vítt og breitt um landið en forðast að geta þess sem mikilvægast er hér á suðvesturhorninu, þar sem langflestir ferðamenn staldra auðvitað við og eiga hér stund.

Þannig sker í augu að Suðurnesja er að litlu sem engu getið í þessari skýrslu. Bláa lónsins er getið í aukasetningu, staðar sem 300 þús. ferðamenn sækja á hverju einasta ári. Í tillögum nefndarinnar er einmitt talað um mikilvægi þess að efla möguleika á svipuðum sviðum og Bláa lónið einmitt vinnur á en þess er ekki getið í öðrum efnum. Suðurnesin hafa upp á margt að bjóða. Ég hef ekki tíma til að rekja það allt hér. Þar er hins vegar glugginn að íslenskum veruleika og því nauðsynlegt að þar sé tekið til hendi.

Í annan stað er ég óhress með að sveitarfélög hér sunnan höfuðborgarinnar séu undanskilin í skýrslunni. Markverðir staðir á borð við Fjörukrána og Vestnorræna menningarsetrið í Hafnarfirði, miðstöð víkinga í okkar landi sem u.þ.b. 100 þús. gestir sækja á ári hverju. Íshestar, sem eiga sér sömuleiðis miðstöð í Hafnarfirði, þar sem 20 þús. gestir mæta. Ætla mætti af lestri skýrslunnar að það væru eingöngu hestar í Skagafirði. Þannig er það auðvitað ekki.

Herra forseti. Það liggja hér fyrir beinar spurningar til hæstv. ráðherra í þessa veruna og ég vænti þess að hann geti gert okkur grein fyrir ástæðum þessa.