Skýrsla um menningartengda ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 13:56:53 (1869)

2001-11-21 13:56:53# 127. lþ. 33.4 fundur 205. mál: #A skýrsla um menningartengda ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[13:56]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa ágætu skýrslu og þá jafnframt höfundi skýrslunnar. Það er sannarlega löngu tímabært að fá slíka skýrslu, ekki síst undir þessum formerkjum, þ.e. menningartengdrar ferðaþjónustu. Enda er sóknarfæri okkar Íslendinga líklega hvað mest á því sviði.

Ég tel að þessi skýrsla sé afskaplega vel unnin, en get þó ekki stillt mig um að segja: svo langt sem hún nær. Að því leyti verð ég að taka undir með hv. fyrirspyrjanda, að ég tel að áherslur í skýrslunni megi rekja, mjög rækilega þannig að ferðin sé hafin hér frá Reykjavík og réttsælis í kringum landið, en í áherslum er nánast eins og numið sé staðar við Markarfljótsbrú.

Nú er það svo að sveitarstjórnir á Suðurlandi og Suðurnesjum hafa lagt gífurlega áherslu, einmitt á þennan þátt, menningartengda ferðaþjónustu. Í þeirra röðum sakna menn þess að þessi svæði skuli hljóta jafnlitla áherslu og raun ber vitni. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort megi vænta síðara bindis í þessari ágætu skýrslu.

(Forseti (HBl): Ekki er ætlast til að ný efnisatriði séu tekin upp þegar tími er útrunninn.)