Samgöngumál á Norðausturlandi

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 14:09:23 (1877)

2001-11-21 14:09:23# 127. lþ. 33.5 fundur 283. mál: #A samgöngumál á Norðausturlandi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GPál (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[14:09]

Fyrirspyrjandi (Gunnar Pálsson):

Virðulegi forseti. Fyrir skemmstu var tekinn í notkun nýr vegarkafli af Háreksstaðaleið að Brunahvammshálsi en Háreksstaðaleið er að mínu áliti merkasta samgöngubót seinni ára á Norðausturlandi. Þetta er fyrsti hluti af tengingu Vopnafjarðar við hringveginn með nútímavegi. Sl. haust merkti síðan Vegagerðin fyrir veglínu áfram út Hofsárdalinn og merkti veglínur beggja vegna árinnar.

Fyrsti liður fyrirspurnar minnar er um það hvað líði undirbúningi að ákvörðun veglínunnar, nánar tiltekið frá Hölkná að Teigará, þ.e. hvorum megin árinnar vegurinn verði lagður. Ég legg gríðarlega áherslu á að vegurinn verði lagður sunnan árinnar. Það er alveg óskaplega áríðandi að ekki verði farið með veginn út norðan við á því að þar er svo miklu snjóþyngra, og þar sem utar dregur er jafnvel snjóflóða- og skriðuhætta. Austan árinnar er miklu heppilegra vegarstæði á allan hátt. Ég fór meðfram þar sem merkt hefur verið sl. haust og mér sýnist þeim hafa tekist furðu vel hjá Vegagerðinni að þræða góða leið og það er mjög gott.

Í öðru lagi spyr ég hvenær fjárveitinga til þessara framkvæmda sé að vænta, þ.e. til vegarins út Hofsárdalinn. Það er að mínu áliti forgangsmál fyrir Vopnafjörð að fá alvöru vegtengingu inn á hringveginn. Núorðið fara allir flutningar fram með bílum, strandsiglingum hefur nánast verið hætt, og oft skapast mikið vandræðaástand á vorin þegar vegurinn um fjallið er með þungatakmörkunum vegna aurbleytu, stundum svo vikum skiptir. Vetrarfæri í dalnum verður líka miklu betra en uppi á heiðinni.

Að síðustu spyr ég um uppbyggingu vegarins norður Bakkafjörð og um Brekknaheiði. Mér skilst að Sandvíkurheiðinni verði bráðlega lokið. Brekknaheiðin hefur að fróðra manna sögn ekki verið lagfærð svo talandi sé um síðustu 50 ár enda er hún á milli kjördæma, og sennilega hafa þingmenn ekki haft nógu mikinn áhuga fyrir henni. Nú er hún komin inn í mitt kjördæmi þannig að kannski breytist það.