Samgöngumál á Norðausturlandi

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 14:14:36 (1879)

2001-11-21 14:14:36# 127. lþ. 33.5 fundur 283. mál: #A samgöngumál á Norðausturlandi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[14:14]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessari merku vegtengingu sem er niður Hofsárdalinn. Það er alveg rétt sem fram kom hjá honum að þetta er ein merkasta samgöngubót sem við höfum fengið á Norðausturlandi, þ.e. lagning Háreksstaðaleiðar, og auðvitað sú tenging sem nú er komin á Háreksstaðaleið fram á Brunahvammsháls. Það var gott að heyra hjá samgrh. að á næsta ári verði tillögur tilbúnar um hvar veglínan eigi að liggja niður Hofsárdalinn. Það hefur komið mjög sterkt fram hjá heimamönnum að það sé mun skynsamlegra að leggja veginn sunnan Hofsár en norðan, og ég veit að Vegagerðin hefur tekið mið af þeim ábendingum heimamanna.

Ég tel að það sé mjög mikilvægt þegar farið verður í endurskoðun vegáætlunar að þessar tillögur liggi fyrir þannig að hægt sé að taka mið af þeim þegar vegáætlun verður endanlega kláruð nú í vetur.