Lögreglan í Reykjavík

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 14:20:07 (1882)

2001-11-21 14:20:07# 127. lþ. 33.6 fundur 206. mál: #A lögreglan í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[14:20]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Í tilefni af fyrirspurnum hv. þm. var leitað eftir upplýsingum hjá lögreglunni í Reykjavík. Í svari lögreglustjórans í Reykjavík kemur eftirfarandi fram:

Hvað varðar fyrstu spurninguna, um samanburð á möguleikum lögreglunnar í Reykjavík til að sinna óskum borgaranna um brýna lögregluaðstoð nú og fyrir tíu árum, segir í svari lögreglustjórans að lögreglan hafi fram að þessu getað sinnt öllum óskum borgaranna um brýna lögregluaðstoð.

Önnur spurning snýr að því hvort lögreglan hafi náð að sinna öllum beiðnum borgaranna um brýna lögregluaðstoð um helgar síðustu fjóra mánuði. Fram kemur í svari lögreglustjóra að samkvæmt upplýsingum frá fjarskiptamiðstöð lögreglunnar hafi náðst að sinna öllum brýnum lögegluverkefnum á þessu tímabili.

Í þriðju spurningunni er spurt um meðaltíma frá því að beiðni um aðstoð barst og þar til lögreglan var mætt á vettvang um helgar síðustu fjóra mánuði. Í svari lögreglustjóra kemur fram að um geti verið að ræða frá 30 sekúndum upp í þrjár mínútur ef um alvarleg tilvik er að ræða. Ef ekki er um alvarleg útköll að ræða getur biðtími þó orðið nokkuð lengri. Í svari lögreglustjóra kemur fram að það sem máli skipti í þessu samhengi sé verkefnaþunginn almennt og staðsetning lögreglubifreiðar þegar útkall berst.

Í fjórða lagi er óskað eftir upplýsingum um lengsta útkallstíma þar sem óskað hefur verið eftir neyðaraðstoð. Lögreglustjórinn upplýsir að samkvæmt upplýsingum frá fjarskiptamiðstöð lögreglu hafi hann lengstur verið fimm til sjö mínútur.

Í fimmta og síðasta lagi óskar hv. fyrirspyrjandi eftir upplýsingum um hvort breytingar hafi orðið á þeim atriðum sem spurt er um hér að framan, þ.e. hvort útkallstími hafi lengst og hvort þurft hafi að vísa frá beiðnum um smærri viðvik lögreglu sem áður var sinnt. Í svari lögreglustjóra kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá fjarskiptamiðstöð lögreglunnar hafi orðið þar nokkrar breytingar. Nú sé verkefnum frekar forgangsraðað en áður. Komi þá fyrir í miklu annríki að útkallstími lengist. Er það mat lögreglustjórans að dregið hafi nokkuð úr þjónustu lögreglunnar við borgarana svo sem við opnun ökutækja, vegna flutnings á hreyfihömluðum og annarri sambærilegri þjónustu. Lögreglustjóri upplýsir jafnframt að reynt sé til hlítar að sinna almennri þjónustu við borgarana af lipurð. Í meiri mæli geri borgararnir sér grein fyrir því að lögreglan þurfi að forgangsraða verkefnum og að í fleiri tilvikum sé reynt að leysa úr málum án þess að lögreglan sé send á vettvang. Af eðlilegum ástæðum hefur dregið úr þeirri þjónustu lögreglu sem nú er sinnt af öðrum aðilum og hefur ekki verið kvartað út af því svo nokkru nemi samkvæmt upplýsingum lögreglustjóra.

Það er auðvitað ljóst að lögreglan verður sífellt að leitast við að bæta þjónustu sína og viðbrögð. Nýverið var t.d. gerð skoðanakönnun á vegum lögreglunnar í Reykjavík á viðhorfum íbúa umdæmisins til starfa lögreglunnar og var sú könnun í flestum atriðum afar jákvæð fyrir lögregluna. Þar komu jafnframt fram atriði sem gefa ástæðu til þess að lögreglan bæti sig og vil ég þar helst nefna meðferð ofbeldismála.

Verulegar breytingar hafa orðið á starfsemi lögreglunnar til hins betra og ég vil nefna sérstaklega fjarskiptamiðstöðina og nýtt fjarskiptakerfi lögreglunnar. Ég tel að með hinni nýju fjarskiptatækni gefist kostur á að efla til muna löggæsluna í borginni með betri skipulagningu, aðgerðastjórn og upplýsingastreymi og síðast en ekki síst hefur viðbragðstími lögreglunnar vegna útkalla styst verulega. Þá má nefna embætti ríkislögreglustjóra sem hefur tekið að sér margs konar verkefni.

Lögreglan hefur í auknum mæli lagt áherslu á grenndarlöggæslu og uppbyggingu forvarnastarfs sem skilað hefur góðum árangri. Gömul vandamál í löggæslu í höfuðborginni, svo sem miðbæjareftirlit um helgar, hafa færst til betri vegar. Nú er verið að skoða tillögur samstarfsnefndar lögreglunnar og Reykjavíkurborgar um frekari úrbætur í þessum efnum.

Að næturlagi um helgar eru vaktirnar í höfuðborginni tvöfaldar hjá lögreglunni. Til samanburðar má nefna að í Ósló er dregið úr löggæslu á þessum tíma um helgar og einungis bráðnauðsynlegustu útköllum sinnt en önnur geymd fram yfir helgina.

Löggæsla í miðborginni hefur batnað af ýmsum ástæðum eins og áður sagði. Sveigjanleiki opnunartíma veitingastaða hefur aukist og þar með dregið úr hópamyndun í miðbænum sem áður var alvarlegt vandamál. Öryggismyndavélar gefa lögreglunni góða yfirsýn yfir svæðið og möguleika á að bregðast við af meiri hraða og öryggi en áður var, en vegna þessara breytinga nýtist sá mannskapur sem sinnir löggæslu í miðbænum að næturlagi um helgar mun betur og hún getur brugðist hraðar við. Lögreglan er því að bæta sig á mörgum sviðum og það á m.a. við um það mál sem hér er til umfjöllunar.