Lögreglan í Reykjavík

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 14:30:22 (1886)

2001-11-21 14:30:22# 127. lþ. 33.6 fundur 206. mál: #A lögreglan í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi GÁS (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[14:30]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra lét hér í veðri vaka að fyrirspurnir mínar væru fram komnar til að leiða hana í gildru og að eðlilegra hefði verið ef ég hefði spurt um það tiltekna atriði sem ég nefndi hér sem dæmi og sýndi fram á að svör hennar í umræðunni áðan stæðust ekki raunveruleikann.

Ég vil vekja á því athygli, herra forseti, og vísa þessu algerlega á bug, að í fjórðu spurningu minni í þessari fyrirspurn er spurt:

,,Hver er lengstur útkallstími þar sem neyðaraðstoðar lögreglu hefur verið óskað?``

Svar hæstv. ráðherra var: ,,Sjö mínútur.`` Ég hef dæmi um miklu lengri tíma. Ráðherrann hafði það auðvitað í sinni hendi að svara hér réttu til en gerði það ekki af einhverjum orsökum.

Ég vísa því algerlega á bug, herra forseti, að hér hafi verið tilraun af minni hálfu til að leiða hæstv. ráðherra í einhverja gildru. Ég vildi bara fá hið sanna og rétta fram. Ég hefði verið fyrstur manna til að fagna því alveg sérstaklega ef lengstur útkallstími væri ekki meiri en sjö mínútur. Veruleikinn er því miður allt annar, herra forseti. Ég get lítið að því gert. En hæstv. ráðherra getur dálítið gert við því. Hún hefur vald og áhrif til þess.