Smávirkjanir í sveitum

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 14:38:21 (1891)

2001-11-21 14:38:21# 127. lþ. 33.11 fundur 284. mál: #A smávirkjanir í sveitum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[14:38]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Spurt er: ,,Hvað líður efndum á tillögum nefndar um málefni raforkubænda sem skilaði áliti í júní á síðastliðnu ári?``

Svarið er eftirfarandi: Í júní á síðasta ári skilaði nefnd um málefni raforkubænda skýrslu sem ber heitið Raforkubændur, hagkvæmni, tækni, möguleikar. Helstu niðurstöður nefndarinnar voru að virkjun smærri vatnsfalla geti verið hagkvæmur kostur fyrir einstaklinga og byggð, sem kynni að styrkja byggð í dreifbýli og auka fjölbreytileika atvinnulífs, og að fjármögnun þyrfti að gerast með lánum og styrkjum frá Lánasjóði landbúnaðarins, Framleiðnisjóði landbúnaðarins, Orkusjóði, iðnrn. og Byggðastofnun.

Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að nefndin hafi verið sammála um að skynsamlegur tilflutningur á fjármagni gæti falist í því að bóndi sem hyggst reisa vatnsaflsvirkjun við bú sitt fengi styrk frá iðnrn. sem næmi niðurgreiðslum til hans á rafmagni í tiltekinn tíma, en á móti yrðu felldar niður rafmagnsgreiðslur til viðkomandi einstaklings. Var nefndin sammála um að slíkur tilflutningur á fjármagni leiddi til sparnaðar til lengri tíma og væri því skynsamleg ráðstöfun.

Í fjárlagafrv. fyrir næsta ár er gert ráð fyrir 2 millj. kr. vegna þessa. Hugmyndin er að þessum fjármunum verði varið til að styrkja þá sem vilja reisa smærri vatnsaflsvirkjanir til eigin nota. Þá taldi nefndin rétt að skipaður yrði stýrihópur til að fjalla um umsóknir vegna framkvæmda við smærri vatnsaflsvirkjanir.

Í desember sl. skipaði ég ráðgjafarnefnd um byggingu smárra vatnsaflsvirkjana. Hlutverk nefndarinnar er m.a að móta tillögur að nauðsynlegum rannsóknum í samstarfi við Orkustofnun, gera tillögur um helstu hönnunarkröfur mannvirkja, véla og rafbúnaðar, móta tillögur um samræmdar kostnaðarforsendur virkjana, gera tillögur um arðsemiskröfur mannvirkis, gera tillögur til stjórnvalda um fyrirkomulag til fjármögnunar framkvæmda við smærri vatnsföll, meta fyrstu niðurstöður á forathugunum, mæla með eða hafna hugmyndum, leggja endanlegt mat á fullhönnuð mannvirki áður en framkvæmdir hefjast og vera raforkubændum, hönnunaraðilum og lánastofnunum til ráðuneytis.

Ráðgjafarnefndin hefur unnið í samræmi við skipunarbréf sitt og mun á næstu vikum skila tillögum um aðgerðir sem byggja á skýrslunni.

Í öðru lagi er spurt:

,,Er einhver áætlun í gangi um að styrkja dreifikerfi raforku í sveitum og leggja þriggja fasa rafmagn þannig að væntanlegir raforkubændur geti selt frá sér umframframleiðslu?``

Svarið er eftirfarandi: Á þessu ári er áformað að verja um 205 millj. kr. til endurnýjunar og styrkingar dreifikerfa Rafmagnsveitna ríkisins til sveita, utan sumarbústaðahverfa. Ætla má að um 40% eða 80 millj. kr. af þessari upphæð nýttist til þrífösunar hjá notendum sem ekki höfðu aðgang að þriggja fasa rafmagni áður. Önnur verkefni sem unnið er að fyrir ofangreindar 205 millj. kr. eru endurnýjun eldri flutningslína til að auka rekstraröryggi og flutningsgetu kerfisins og lagning strengja til nýrra notenda.

Styrking og endurnýjun kerfisins er í dag nánast alfarið með þriggja fasa strengjum. Engin sérstök áætlun er fyrir hendi varðandi uppbyggingu á þriggja fasa dreifikerfi raforku á landsbyggðinni. Þær upphæðir sem til ráðstöfunar hafa verið ár hvert hafa aðeins nægt til brýnustu endurbóta og viðhalds flutnings- og dreifikerfisins. Sérstök nefnd er iðnrh. skipaði á liðnu ári í samræmi við þingsályktun Alþingis frá 10. mars 1999 vinnur nú að úttekt á þörf atvinnulífs landsbyggðarinnar fyrir þriggja fasa rafmagn á næstu árum. Hefur nefndin haft samband við allar sveitarstjórnir og óskað eftir upplýsingum um mestu þörf fyrir þriggja fasa rafmagn í hverju sveitarfélagi til að geta hugsanlega forgangsraðað framkvæmdum og gert markvissari áætlanir um endurnýjun dreifiveitna og þá um leið lagningu þriggja fasa rafmagns. Nefndin mun væntanlega ljúka störfum fyrir næstu áramót. Með þessu starfi ætti að skapast grundvöllur til þess að gera markvissari áætlanir en áður um forgangsröðun við endurnýjun dreifikerfisins miðað við þarfir atvinnulífsins á landsbyggðinni.

Að öðru jöfnu verður að gera ráð fyrir því að raforkubændur kosti sjálfir tengingu frá virkjunum inn á nærliggjandi flutnings- eða dreifikerfi.

Á þessu stigi er óljóst hvar hugsanlegar smávirkjanir muni verða staðsettar í framtíðinni. Eðlilegt er að taka tillit til hugsanlegra smávirkjana þegar kemur að endurnýjun dreifikerfis en að öllu jöfnu mun öryggi og flutningsgeta kerfisins ásamt þörf atvinnulífsins í dreifbýlinu hafa forgang hvað varðar ráðstöfun fjármagns til endurnýjunar dreifikerfisins.