Afnám kvótasetningar

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 14:53:29 (1899)

2001-11-21 14:53:29# 127. lþ. 33.7 fundur 210. mál: #A afnám kvótasetningar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[14:53]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Með fréttatilkynningu frá sjútvrn. 5. júní sl. var tilkynnt um leyfilegan heildarafla á fiskveiðiárinu 2001--2002. Eftir að það hafði verið rakið kom fram að Hafró legði til að keila og langa yrðu líka settar inn í kvóta, en ráðherra taldi ekki ástæðu til að verða við því. Hins vegar er greint frá því að stofnunin leggi til að steinbítskvótinn á næsta fiskveiðiári, þ.e. yfirstandandi nú, verði 13.000 tonn eins og árið áður, en sjútvrh. hafi ákveðið að steinbítur verði utan kvóta á næsta fiskveiðiári og rökstyður þá ákvörðun sína m.a. með vísbendingum um góða nýliðun.

Hinn 16. ágúst kemur síðan ný fréttatilkynning frá sjútvrn. Þá er ráðherra búinn að skipta um skoðun varðandi keilu og löngu. Þær tegundir eiga nú að fara inn í kvóta. Hann hefur jafnframt ákveðið að skötuselur, sem víðast er dæmigerður meðafli, fari í kvóta þó Hafró hafi ekki lagt það til. Svo er hnýtt snyrtilega aftan í upptalninguna: Steinbítur verður áfram í kvóta.

Herra forseti. Í 3. gr. laganna um stjórn fiskveiða segir, með leyfi forseta:

,,Sjávarútvegsráðherra skal, að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar, ákveða með reglugerð þann heildarafla sem veiða má á ákveðnu tímabili eða vertíð úr þeim einstökum nytjastofnum við Ísland sem nauðsynlegt er talið að takmarka veiðar á. Heimildir til veiða samkvæmt lögum þessum skulu miðast við það magn.``

Að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunar, hvað merkir það? Getur ráðherra farið með tillögur stofnunarinnar um heildarafla eins og honum hentar hverju sinni? Og breytir það þá engu hvort stofnunin hefur mælt með því að tegund fari inn í kvóta eða ekki? Getur ráðherra upp á sitt eindæmi ákveðið að taka tegund úr kvóta eða setja tegund í kvóta?

Í lögunum um stjórn fiskveiða segir í 2. mgr. 7. gr. að veiðiheimildum á þeim tegundum, sem heildarafli er takmarkaður af, skuli úthlutað til einstakra skipa sem aflahlutdeild. Hvernig rímar þetta við steinbítsæfinguna, herra forseti?

Ég hef í ljósi þessa lagt fram eftirfarandi spurningar til hæstv. sjútvrh.:

Hvaða skilyrði þurfa að vera fyrir hendi til að ráðherra geti ákveðið að gefa veiðar á kvótasettum nytjastofni frjálsar?

Telur ráðherra að þau skilyrði hafi verið fyrir hendi varðandi steinbít sl. vor? Ef svo var, af hverju var tegundin þá kvótasett aftur?

Herra forseti. Við stærum okkur af því að byggja á vísindalegri ráðgjöf. En hvaða vísbendingar felast í framkomu og ákvörðunum hæstv. ráðherra síðasta sumar?