Afnám kvótasetningar

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 15:02:38 (1903)

2001-11-21 15:02:38# 127. lþ. 33.7 fundur 210. mál: #A afnám kvótasetningar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[15:02]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég verð að segja að svör hæstv. ráðherra vekja nýjar spurningar eða gera það a.m.k. að verkum að þær spurningar sem ég varpaði fram í fyrirspurn minni gerast áleitnari. Ég velti vöngum yfir hinni vísindalegu ráðgjöf og ég spyr enn og aftur, herra forseti: Við hvað styðst það þegar við segjum umheiminum að við stjórnum veiðum eftir vísindalegri ráðgjöf ef ráðherra getur upp á sitt eindæmi ákveðið hvort tegund fer inn í kvóta eða út úr honum og, eins og fram kom áðan, það ræðst af þrýstingi hagsmunahópa? Þetta finnst mér mjög áleitin spurning sem nauðsynlegt er fyrir okkur að svara og fá svör við frá þeim sem nú fer með framkvæmdarvaldið.

Í öðru lagi finnst mér líka mikilvægt að ráðherra svari því hvernig hann túlkar 2. mgr. 7. gr. laganna um stjórn fiskveiða. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Veiðiheimildum á þeim tegundum, sem heildarafli er takmarkaður af, skal úthlutað til einstakra skipa. Skal hverju skipi úthlutað tiltekinni hlutdeild af leyfðum heildarafla tegundarinnar.``

Lítur hæstv. sjútvrh. þannig á að þessi takmarkaði heildarafli sé þá einungis hans ákvörðun og það hafi ekkert með niðurstöður Hafrannsóknastofnunar eða þau vísindi að gera sem við höfum hingað til trúað og talið að lægju að baki þeim niðurstöðum?

Mér finnst sem sagt, herra forseti, að hér liggi fyrir afskaplega veik svör við stórum og áleitnum spurningum varðandi það hvernig menn geta farið með fiskveiðistjórnarkerfið sem þrátt fyrir að vera ekki endilega fiskverndarkerfi hefur þó verið talið byggjast á ákveðnum efnahagslegum forsendum. Ég spyr, herra forseti: Hvar eru þær ef ráðherra getur kippt fótunum undan útgerð á Íslandi í dag með einni einfaldri ákvörðun?